Innlent

Grindavíkurvegur opnaður á nýjan leik

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Leiðin til Grindavíkur er ekki lengur bein og greið. Almenningur má þó aka að Bláa lóns afleggjaranum en þaðan er lokað í suður fyrir almenna umferð.
Leiðin til Grindavíkur er ekki lengur bein og greið. Almenningur má þó aka að Bláa lóns afleggjaranum en þaðan er lokað í suður fyrir almenna umferð.

Búið er að opna leið um Grindavíkurveg frá Reykjanesbraut að nýrri vegtengingu að Bláa lóninu sunnan varnargarðs. Nýr hluti Bláalónsvegar er allur innan varnargarðsins. Þessi leið er öllum opin en lokað er til Grindavíkur nema þeim sem um mega fara. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Almannavörnum sem vísar til nánari umfjöllunar á vef Vegagerðarinnar. Á vefsíðu Vegagerðarinnar eru vegfarendur beðnir um að fara sérstaklega varlega á þeim hluta sem fer yfir nýtt hraun.

Leyfilegur hámarkshraði á Grindavíkurvegi er 90 km/klst. frá Reykjanesbraut að nýja hrauninu (norðan Sýlingafells) sem rann yfir Grindavíkurveginn. Þaðan og að Bláa lóninu er leyfilegur hámarkshraði 50 km/klst. Beygjur á nýju tengingunni að Bláalónsvegi eru margar krappar og þarf að aka með gát þar. Sérstaklega þarf að gæta að sér á veginum þar sem hann liggur yfir nýja hraunið og þar er stranglega bannað að stöðva ökutæki enda er enn mikill hiti í vegi og á svæðinu í kring.

Vegurinn yfir hraunið á Grindavíkurvegi og ný vegtenging frá Grindavíkurvegi að Bláalónsvegi er með malarslitlagi og því líka nauðsynlegt að fara gætilega þess vegna.

Bannað er að leggja ökutækjum í vegkanti á allri þessari leið.

Grindavíkurvegur er lokaður almennri umferð sunnan við nýja vegtengingu að Bláalónsvegi sem sjá má á kortinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×