Erlent

Læknar mót­mæla fjölgun lækna þrátt fyrir lækna­skort

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Læknar mótmæla harðlega fyrirætlunum stjórnvalda um að stuðla að fjölgun í stéttinni.
Læknar mótmæla harðlega fyrirætlunum stjórnvalda um að stuðla að fjölgun í stéttinni. Getty/NurPhoto/Chris Jung

Aðgerðum hefur verið frestar og sjúkrahús hafa neyðst til að vísa sjúklingum annað eftir að 6.500 unglæknar sögðu upp störfum á heilbrigðisstofnunum í Suður-Kóreu. Af þeim mættu 1.600 ekki til vinnu í gær.

Um er að ræða mótmæli læknanna gegn fyrirætlunum stjórnvalda um að fjölga læknanemum úr 3.000 í 5.000. Um það bil 90 prósent heilbrigðiskerfisins í Suður-Kóreu er einkarekið en þjónustan er niðurgreidd af sjúkratryggingum. 

Læknarnir óttast að með fjölgun í stéttinni aukist samkeppnin.

Gríðarstór vandi blasir hins vegar við en hlutfall lækna á íbúa er 2,5 á móti þúsund. 

Verulegur skortur er á læknum á landsbyggðinni og innan ákveðinna sérgreina, á borð við barna- og fæðingalækningar, sem gefa ekki jafn mikið í aðra hönd samanborið við til dæmis húð- og lýtalækningar.

Læknar í Suður-Kóreu eru afar vel launaðir og tekjur lækna óvíða hærri. Meðalaun sérfræðilæknis á opinberu sjúkrahúsi er um það bil 200 þúsund dalir á ári, sem er langt umfram meðallaun í landinu.

Stjórnvöld eru harðákveðin í því að fjölga læknum og hafa skipað unglæknunum að mæta aftur til starfa. Saka þeir læknana um að halda lífi og heilsu sjúklinga í gíslingu. Forsetinn, Yoon Suk-yeol, segir krabbameinsaðgerðum meðal annars hafa verið frestað vegna mótmælanna.

Yfirvöld hafa hótað því að höfða mál gegn læknunum og þá hafa þau einnig vald til að svipta þá lækningaleyfinu fyrir að grafa undan heilbrigðiskerfinu. Forsetinn segir nauðsynlegt að fjölga í stéttinni en að óbreyttu muni skorta 15.000 lækna árið 2035.

Stefna stjórnvalda nýtur stuðnings um 80 prósent þjóðarinnar en sérfræðingar segja ómögulegt að spá fyrir hvernig fer. Forsetinn sé ákveðinn í að koma breytingunum í gegn en hið einkarekna heilbrigðiskerfi sé afar viðkvæmt fyrir verkfallsaðgerðum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×