Innlent

Rann­sókn á á­rekstri flug­vélanna á frum­stigi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Glögglega má sjá á flugleið vélanna tveggja á vef FlightRadar hvernig þær rekast saman. Hægra megin má sjá ummerkin á annarri vélinni eftir áreksturinn.
Glögglega má sjá á flugleið vélanna tveggja á vef FlightRadar hvernig þær rekast saman. Hægra megin má sjá ummerkin á annarri vélinni eftir áreksturinn.

Rannsókn á árekstri tveggja flugvéla við Vestmannaeyjar á sunnudag er á frumstigi. Ekki er ljóst hvenær skýrsla um málið verður gefin út af Rannsóknarnefnd samgönguslysa.

Þetta kemur fram í svari Ragnars Guðmundssonar, stjórnanda rannsókna á flugsviði hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa til Vísis. Greint var frá málinu síðastliðinn mánudag.

Þá kom fram að flugmaður og farþegi hafi verið í annarri vélinni en aðeins flugmaður í hinni. Báðar hafi vélarnar verið flughæfar eftir að hafa rekist saman á flugi og þeim svo lent á Keflavíkurflugvelli.

Til stóð að fljúga vélunum í ferjuflug til Norður-Ameríku. Flugvélarnar eru báðar af gerðinni Kingair B200. Greint hefur verið frá því að flugmenn vélanna hafi fyrst um sinn ekki tilkynnt yfirvöldum um atvikið. Það hafi ekki verið gert fyrr en þjónustuaðilar á Keflavíkurflugvelli tóku eftir skemmdum sem hlutust af árekstrinum.

Hafi ekki verið gefið leyfi fyrir samflugi

Morgunblaðið fullyrðir í dag og hefur eftir heimildum að flugmennirnir hafi flogið vélunum samsíða áður en þær rákust saman. Vinstri loftskrúfa annarrar vélarinnar hafi rekist í hægri láréttan stélflöt hinnar vélarinnar.

Vélarnar flugu frá Belfast á Norður-Írlandi til Keflavíkur á sunnudag. Fullyrðir blaðið að flugmenn vélanna hafi óskað eftir því að fljúga samflug en fengið neitun úr flugturni.

Flugmennirnir hafi þá verið í blindflugi í yfir 19.500 fetum en lækkað sig niður eftir að hafa fengið neitnunina. Þar hafi þeir flogið sjónflug og þá samsíða þegar vélarnar rákust saman, að því er Morgunblaðið fullyrðir.

Flugleið vélanna á vef FlightRadar.FlightRadar


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×