Innlent

„Í rauninni það versta sem gat gerst“

Jakob Bjarnar skrifar
Kjartan Már Kjartansson, bæjarsstjóri Reykjanesbæjar, er nú staddur á Ítalíu en er væntanlegur til landsins seinnipart laugardags. Hann segir íbúa nú verða að búa sig undir kaldari hús en þeir eiga að venjast.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarsstjóri Reykjanesbæjar, er nú staddur á Ítalíu en er væntanlegur til landsins seinnipart laugardags. Hann segir íbúa nú verða að búa sig undir kaldari hús en þeir eiga að venjast. Vísir/Egill

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar er staddur á Ítalíu og fylgdist með aukafréttatíma Stöðvar 2, sér til mikillar hrellingar.

Glóandi hraunið var að fara yfir heitavatnslögnina, sem skaffar Keflvíkingum og öðrum sem búa í Reykjanesbæ fyrir heitu vatni.

„Lögnin er farin í sundur. Það kom fram í tali viðmælanda. Við erum að loka sundlaugum og meta ástand í skólum,“ segir Kjartan Már sem er í stöðugu sambandi við aðgerðarstjórn.

Áhorfendur Stöðvar 2 sáu í beinni útsendingu þegar miklir bólstrar urðu við það að hrauni náði stóru heitavatnslögninni fyrir Suðurnesin.

„Þetta er ekki gott. Reyndar mjög vont og í rauninni það versta sem gat gerst. Það er ljóst að það verður mikil skerðing á heitu vatni, meðan verið er að tengja lögn neðanjarðar,“ segir Kjartan Már.

Bæjarstjórinn segir bæjarfélagið búa að einhverjum varatönkum með heitu vatni en fyrirliggjandi sé að íbúar verði að búa sig undir það að vera í húsum sem eru ekki eins heit og alla jafna.

Spara rafmagn og heitt vatn

Kjartan Már er væntanlegur til landsins síðdegis á laugardaginn. Hann segir þetta skelfilega viðburði en hann geri engin kraftaverk, ekki einn, og ekki á Ítalíu.

„Það er fullt af fólki að vinna í málinu. Ég er í sambandi við aðgerðarstjórn og svo fylgist maður með hér. Og treystir á sérfræðingana sem eru að vinna að málum.“

Í tilkynningu frá almannavörnum er biðlað til íbúa á Suðurnesjum að spara allt rafmagn og heitt vatn. Mikilvægt sé að allir leggist á eitt. Slökkva þarf á öllu óþarfa rafmagni, skrúfa fyrir alla heita potta og loka gluggum. Íbúar eru hvattir til að fylgjast með fréttum.


Tengdar fréttir

Neyðarstigi lýst yfir vegna rofs á heitavatnslögn

Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum, hefur ákveðið að virkja neyðarstig Almannavarna vegna rofs á afhendingu á heitu vatni á Suðurnesjum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×