Fótbolti

Grípa til að­gerða vegna hálfnakins blaða­manns

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn eru oft berir að ofan í stúkunni í Afríkukeppninni en það þykir að sjálfsögðu ekki boðlegt í blaðamannastúkunni.
Stuðningsmenn eru oft berir að ofan í stúkunni í Afríkukeppninni en það þykir að sjálfsögðu ekki boðlegt í blaðamannastúkunni. Getty/Ulrik Pedersen

Allt of margir fjölmiðlamenn hafa misst sig á leikjum Afríkukeppninnar í knattspyrnu í ár þar sem fagmennska og virðing fyrir kollegum sínum hefur oft fokið út um gluggann.

Svo slæmt var ástandið orðið að afríska knattspyrnusambandið taldi sig þurfa að setja saman nýjar reglur um rétta hegðun stéttarinnar á leikjum keppninnar.

Það hefur verið mikið að frétta af mótinu enda mikið af óvæntum úrslitum þar sem margar af bestu knattspyrnuþjóðum álfunnar hafa dottið snemma úr keppni.

Fréttir af látum í blaðamannastúkunni hafa engu að síður stolið senunni. Þar hafa fjölmiðlamenn orðið uppvísir af ofbeldi, svívirðingum, slagsmálum og þá vakti einn þeirra mikla athygli þegar hann dansaði hálfnakinn um blaðamannastúkuna.

„Það var einhver að dansa nakinn um blaðamannastúkuna. Það gengur ekki,“ sagði fjölmiðlafulltrúi afríska knattspyrnusambandsins, CAF. Sambandið gaf út nýjar reglur til að koma í veg fyrir „ófagmannlega og ósæmilega hegðun“ eins og það er orðað í tilkynningunni.

„CAF hefur tekið eftir því að tilfellum með ófagmannlegri og ósæmilegri hegðun hefur fjölgað mikið meðal nokkurra fjölmiðlamanna á vinnusvæði fjölmiðlamanna á Afríkumótinu. CAF hitti skipuleggjendur mótsins og lögregluna til að ræða stöðuna og nauðsynlegar aðgerðir,“ sagði í tilkynningunni.

„Við gerum okkur grein fyrir því að við erum öll áhugafólk um fótbolta með mikla ástríðu fyrir landsliði okkar en fjölmiðlamenn verða engu að síður að sýna fagmennsku,“ sagði í tilkynningunni en sambandið hefur staðfest fréttir af villtum fagnaðarlátum og svívirðingum í garð kollega.

Þeir fjölmiðlamenn sem verða uppvísir af ósæmilegri hegðun missa hér eftir fjölmiðlaréttindi sín á mótinu.

Það fer ekkert á milli að fjölmiðlamaðurinn sem dansaði næstum því nakinn um fjölmiðlastúkuna til að svekkja kollega sína hafi verið kornið sem fyllti mælinn. Hann var frá Fílabeinsströndinni og var að fagna sigri á meisturum Senegal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×