Innlent

Rak upp í grjót­garðinn í Hafnar­firði

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Björgunarbáturinn Fiskaklettur dró skútuna svo að bryggju.
Björgunarbáturinn Fiskaklettur dró skútuna svo að bryggju. Landsbjörg

Skúta slitnaði laus í Hafnarfjarðarhöfn í nótt og rak upp í grjótgarð hafnarinnar. Björgunarsveitir komu henni aftur á flot í morgun og er hún lítið skemmd, að sögn Jóns Þórs Víglundssonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar.

Tekin var ákvörðun um að tryggja skútuna þar sem hún var í nótt, enda var þá að flæða undan henni. Aðgerðir hófust svo aftur um níu í morgun og tókst skömmu síðar að koma skútunni á flot. Hún virtist lítið skemmd og enginn leki var sjáanlegur. Björgunarbáturinn Fiskaklettur dró hana svo að bryggju.

Jón Þór segir að nóttin hafi verið nokkuð erilsöm hjá björgunarsveitum. Flutningabíll valt á Laxárdalsheiði um níuleytið í gærkvöldi og sóttu björgunarsveitir ökumann bílsins. Þá eru björgunarsveitarmenn nú að gera sig klára til að athuga með farm bílsins en Jón Þór segir ekki liggja fyrir hvað bíllinn flutti.

Þá komu björgunarsveitir ökumanni til aðstoðar sem festi bíl sinn á Ennishálsi á leið til Hólmavíkur um 22:30 í gærkvöldi. Nær 23:00 í gærkvöldi komu björgunarsveitir eldri hjónum til aðstoðar á Snæfellsnesi sem höfðu fest bíl sinn þar sem þau voru á leið í sumarbústað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×