Innlent

Farið yfir for­gangs­röðun vegna mögu­legs goss

Oddur Ævar Gunnarsson og Bjarki Sigurðsson skrifa
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. Vísir/Ívar

Forsætisráðherra mun funda með almannavörnum um stöðuna í og við Grindavík síðar í dag. Hún segist vona að línur skýrist fyrir Grindvíkinga í næstu viku þegar von sé á að frumvarp um stuðning þeim til handa verður kynnt.

„Við erum að fara að funda með almannavörnum um stöðuna í Grindavík. Það er búið að standa yfir mikil vinna í stjórnkerfinu,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra í samtali við fréttastofu.

Hún segir vinnuna hafa farið fram hjá almannavörnum, Veðurstofu, jarðvísindamönnum á sviði eldfjallafræði og stjórnkerfinu öllu. Verið sé að meta ástand innviða og mögulega þróun mála í Grindavík.

„Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum eiga vísindamennirnir von á nýjum eldsumbrotum á næstunni. Þannig að við erum að fara yfir forgangsröðun verkefna í dag, næstu daga og vikur í Grindavík.“

Allar sviðsmyndir teknar til greina

Katrín segir að við gerð frumvarps um stuðning til handa Grindvíkingum sé reynt að líta til allra sviðsmynda. Meðal annars þeirrar að ekki verði hægt að búa áfram í Grindavík.

„Og það er auðvitað ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin er að undirbúa þessa tillögur um að í raun og veru ráðast í uppgjör á öllu íbúðarhúsnæði í Grindavík,“ segir Katrín. Búið verði þannig um hnútana að Grindvíkingar geti komið sér upp varanlegu húsnæði annars staðar.

„En líka þannig að þegar línur vonandi fara að skýrast, því auðvitað bindum við líka vonir við að þessari hrinu linni einhvern tímann, að það verði þá hægt að snúa aftur. Þannig að við erum að reyna að halda þessari heildarmynd í því frumvarpi sem við eigum von á að verði kynnt í næstu viku.“

Hún segir stjórnvöld eiga í samtali við banka og lífeyrissjóði um uppgjör vegna eigna í Grindavík. Það geti vonandi verið sameiginlegt verkefni ríkissjóðs, fjármálafyrirtækja og Náttúruhamfaratryggingar.

Unnið að varnargörðum í áföngum

Katrín segir liggja fyrir að haldið verði áfram að reisa varnargarða við Grindavík. Þeirri vinnu verði haldið áfram í áföngum.

„Síðan er verið að kortleggja í raun og veru önnur svæði, það er að segja hvar þarf að ráðast í nánari greiningarvinnu til þess að geta undirbúið mögulega varnagarða í framtíðinni en þetta er núna stóra verkefnið, það er hvernig við göngum frá málum gagnvart Grindavík.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×