Fótbolti

Fimm hæstu Afríku­þjóðirnar allar úr leik í Afríku­keppninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sadio Mane og félagar í senegalska landsliðinu höfðu titil að verja í keppninni í ár en duttu úr leik í sextán liða úrslitunum.
Sadio Mane og félagar í senegalska landsliðinu höfðu titil að verja í keppninni í ár en duttu úr leik í sextán liða úrslitunum. AP/Themba Hadebe

Óvænt úrslit og slæmt gengi stóru þjóðanna hefur einkennt Afríkukeppnina í knattspyrnu sem stendur nú yfir á Fílabeinsströndinni.

Engin af þeim fimm Afríkuþjóðum sen eru efstar á styrkleikalista Alþjóða knattspyrnusambandsins tókst að tryggja sér sæti í átta liða úrslitunum.

Marokkó (13. sæti á FIFA-listanum), Senegal (20.), Túnis (20.), Alsír (30.) og Egyptaland (33.) eru öll úr leik.

Alsír og Túnis urðu í neðsta sæti í sinum riðli í riðlakeppninni, Senegal og Egyptaland töpuðu í vítakeppni á móti Fílabeinsströndinni og Kongó í sextán liða úrslitunum og Marokkó tapaði 2-0 á móti Suður-Afríku.

Hæsta þjóðin á FIFA-listanum sem er enn á lífi í keppninni er Nígería sem situr í 42. sæti meðal bestu fótboltalandsliða heims. Nígería mætir Angóla (117. sæti á FIFA-lista) í átta liða úrslitunum en næstefsta þjóðin, heimamenn frá Fílabeinsströndinni (49. sæti á FIFA-lista), mæta Malí (51.sæti).

Engin af þeim þjóðum sem komust áfram núna voru heldur í átta liða úrslit Afríkukeppninnar þegar hún fór fram síðasta fyrir tveimur árum.

Senegal, Egyptaland, Marokkó, Búrkína Fasó, Miðbaugs-Gínea, Gambía, Kamerún og Túnis voru þar árið 2021 en í ár eru í átta liða úrslitunum Nígería, Kongó, Angóla, Suður-Afríka, Malí, Grænhöfðaeyjar, Gínea og Fílabeinsströndin.

Afríkukeppnin er sýnd í beinni útsendingu á Vodafone Sport og átta liða úrslitin hefjast 2. febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×