Innlent

Búist við lé­legu skyggni og erfiðum akstursskilyrðum

Jón Þór Stefánsson skrifar
Vegurinn uppað Skíðaskálanum í Hveradölum. Myndin er úr safni.
Vegurinn uppað Skíðaskálanum í Hveradölum. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Fyrripartinn í dag mun allhvass vindur með dimmum éljum ganga yfir, fyrst á sunnanverðu landinu, og síðan vestantil. Búast má við lélegu skyggni og erfiðum akstursskilyrðum í éljunum.

Þetta kemur fram í textaspá Veðurstofunnar, en þar segir að ráðlegt sé að kanna ástand á vegum hjá Vegagerðinni áður en lagt er af stað í ferðalög og hafa í huga að aðstæður til aksturs geta farið hratt versnandi þegar él skella á.

Því er spáð að draga fari úr vindi síðdegis, en éljagangurinn haldi áfram.

Búist er við því að lengst af verði þurrt á norðaustanverðu landinu og frost víða á bilinu núll til fimm stig.

Gular viðvaranir hafa verið gefnar út á þremur landshlutum. Það er á Suðurlandi, Faxaflóa og í Breiðafirði. Viðvörun á Suðurlandi hófst klukkan sex í morgun og stendur yfir til klukkan þrjú í dag. Viðvöruninni á Faxaflóa á að ljúka af klukkan fjögur og þeirri sem er í Breiðafirði klukkan fimm.

Á morgun er útlit fyrir suðvestlæga eða breytilega átt með snjókomu eða éljum víða um land. Þá er talið að rofa muni til austanlands seinnipartinn. Þó mun bæta í vind annað kvöld.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag:

Suðvestlæg eða breytileg átt 5-13 m/s og snjókoma eða él, en rofar til austanlands seinnipartinn. Bætir í vind um kvöldið. Frost 0 til 6 stig.

Á mánudag:

Sunnan 10-18 og rigning, slydda eða snjókoma, en þurrt að kalla á norðaustanverðu landinu. Hiti um og yfir frostmarki. Vestlægari og kólnar með éljum vestantil um kvöldið.

Á þriðjudag:

Suðvestan 8-15 og él, en bjartviðri norðaustantil á landinu. Frost 0 til 5 stig.

Á miðvikudag:

Suðvestlæg átt og él, en yfirleitt þurrt norðanlands. Kólnar heldur í veðri.

Á fimmtudag:

Breytileg átt og él í flestum landshlutum. Frost 2 til 12 stig, kaldast inn til landsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×