Innlent

Ekki fallist á að for­dómar gegn múslimum hafi verið á­stæðan

Jón Þór Stefánsson skrifar
Málið varðar starf landamæravarðar á Keflavíkurflugvelli.
Málið varðar starf landamæravarðar á Keflavíkurflugvelli. Vísir/Vilhelm

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum braut ekki lög með því að endurnýja ekki ráðningu manns í starf landamæravarðar á Keflavíkurflugvelli sem taldi sig vera mismunað vegna trúar sinnar. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar jafnréttismála.

Maðurinn, sem er múslimi, sagðist hafa upplifað mikla fordóma og jafnvel hatursorðræðu á starfstöð sinni á flugvellinum. Hann taldi að ástæða þess að hann hafi ekki fengið fastráðningu hafi verið sú að hann hafi búið lengi erlendis, sé í sambandi við konu sem er hælisleitandi, og hafi verið giftur konu frá Sádi-Arabíu.

Lögreglustjórinn hafnaði þessu. Maðurinn hafi verið ráðinn til reynslu á tímabundnum samningi og starfað frá desembermánuði 2022 til mars 2023. Undir lok þess tímabils hafi frammistaða hans verið metin ófullnægjandi á flestum sviðum og ráðningarsamningurinn ekki endurnýjaður.

Skömmu áður en sú ákvörðun var tekin hafði hann átt fund við stjórnendur embættisins í kjölfar kvartana vegna framkomu og vinnubragða hans.

Í úrskurðinum sem málið varðar er haft eftir lögregluembættinu að maðurinn hafi í upprunalega umsóknarferlinu tekið fram að fyrra bragði að hann væri múslimi og þar af leiðandi sé litið svo á að trú hans hafi ekki haft áhrif á ákvörðun um ráðningu hans.

Maðurinn vildi meina að hann hafi ekki fengið ábendingar um ófullnægjandi frammistöðu sína á meðan hann var í starfinu og vildi meina að hefði hann fengið að vita af henni hefði hann reynt að bæta sig.

Úrskurðarnefndin komst, líkt og áður segir, að þeirri niðurstöðu að lögreglustjórinn hafi ekki brotið lög með því að endurnýja ekki ráðningarsamninginn. Gögn málsins bendi til þess að ástæða ákvörðunarinnar hafi verið frammistaða mannsins í starfi. Þar af leiðandi megi telja að hlutlæg og málefnaleg sjónarmið hafi legið að ákvörðuninni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×