Fótbolti

Lið þurfi að gefa leiki ef stuðnings­menn beita leik­menn kynþáttaníð

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gianni Infantoni vill herða reglur varðandi kynþáttaníð í garð leikmanna.
Gianni Infantoni vill herða reglur varðandi kynþáttaníð í garð leikmanna. Ulrik Pedersen/DeFodi Images via Getty Images

Gianni Infantino, forseti alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA, vill að koma á nýjum reglum sem kveða á um að lið þurfi að gefa leiki ef stuðningsmenn þeirra beita leikmenn kynþáttaníð.

Þessar vangaveltur Infantinos birtust á X, áður Twitter, í dag eftir það sem hann kallar „algjörlega viðbjóðsleg“ atvik sem áttu sér stað í gær. Atvikin áttu sér stað í leikjum Udinese og AC Milan annars vegar, og Sheffield Wednesday og Coventry hins vegar.

Leikur Udinese og AC Milan var stöðvaður um stund eftir að Mike Maignan, markvörður Mílanó-liðsins, mátti þola kynþáttaníð frá stuðningsmönnum Udinese. Kasey Palmer, leikmaður Coventry, segist hafa þurft að þola samskonar meðferð frá stuðningsmönnum Sheffield Wednesday.

Infantino vill að tekið verði harðar á slíkum málum en nú er gert.

„Atvikin sem áttu sér stað í Udinese og Sheffield á laugardaginn voru algjörlega viðbjóðsleg og óásættanleg. Leikmennirnir sem urðu fyrir þessu fá fullan stuðning frá mér,“ segir meðal annars í færslu Infantino á X.

„Auk þess að vera með þriggja skrefa kerfi (leikur stöðvaður, leikur stöðvaður aftur, leik hætt), verðum við að koma því á að lið þeirra stuðningsmanna sem beita kynþáttaníð og verða til þess að leik sé hætt þurfi sjálfkrafa að gefa leikinn.“

„FIFA og fótboltafjölskyldan stendur þétt við bakið á þeim sem hafa þurft að þola kynþáttaníð eða annarskonar mismunun. Í eitt skipti fyrir öll: Segjum nei við rasisma! Segjum nei við hvers kyns mismunun!“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×