Fótbolti

Út­skýra fjar­veru Gylfa: „Að­stæður í Dan­mörku ekki á­kjósan­legar“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson gekk í raðir Lyngby í haust eftir langa fjarveru frá fótboltavellinum.
Gylfi Þór Sigurðsson gekk í raðir Lyngby í haust eftir langa fjarveru frá fótboltavellinum. Getty/Lars Ronbog

Danska úrvalsdeildarfélagið Lyngby sendi í dag frá sér tilkynningu þar sem félagið útskýrir af hverju íslenski landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson hafi ekki æft með liðinu undanfarnar vikur.

Danska félagið segir á heimasíðu sinni að það sé góð og gild ástæða fyrir því að Gylfi hafi ekki komið til móts við liðið á æfingasvæði félagsins, Lundtoftevej.

Ástæðan sé sú að Gylfi hafi orðið fyrir álagsmeiðslum eftir endurkomu sína á knattspyrnuvöllinn og sé nú á leið til Spánar þar sem hann muni ganga í gegnum endurhæfingu við bestu mögulegu aðstæður.

Í tilkynningu félagsins segir að eftir langa fjarveru Gylfa frá knattspyrnuivellinum hafi vel mátt búast við að slík meiðsli myndu taka sig upp. Eins og flestir vita var Gylfi lengi frá æfingum og keppni eftir að hann var sakaður um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi, en þær ásakanir hafa verið látnar niður falla.

Þá segir einnig að Gylfi hafi haldið heim til Íslands þegar vetrarfríið tók við til að hefja endurhæfingu sína, en muni nú fljótlega halda til Spánar.

„Það er engin spurning um að við myndum að sjálfsögðu vilja hafa Gylfa í toppformi með okkur á æfingum nú þegar,“ segir Nicas Kjeldsen, íþróttastjóri Lyngby um stöðu leikmannsins.

„En við vissum að það væri möguleiki á einhverjum fylgikvillum eftir að hafa ekki spilað fótbolta svona lengi. Aðstæður í Danmörku eru ekki ákjósanlegar í augnablikinu fyrir enduehæfingu Gylfa, þannig það er frábært að sjá að hann er staðráðinn í því að koma sterkari til baka, og að hann sé tilbúinn að leggja þetta extra á sig hjá sérfræðingum á Spáni.“

„Bæði við, og Gylfi, vonumst til að hann verði kominn aftur inn í hópinn þegar við leggjum af stað í æfingaferð 2. febrúar,“ bætti Kjeldsen við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×