Innlent

Hödd hætt hjá Sig­ríði Hrund for­seta­fram­bjóðanda

Jakob Bjarnar skrifar
Þær Sigríður Hrund og Hödd náðu ekki sama takti í baráttunni og því ákvað Hödd að segja gott komið, með góðum fyrirvara svo að nýr fjölmiðlafulltrúi geti komið sér fyrir í starfi.
Þær Sigríður Hrund og Hödd náðu ekki sama takti í baráttunni og því ákvað Hödd að segja gott komið, með góðum fyrirvara svo að nýr fjölmiðlafulltrúi geti komið sér fyrir í starfi. vísir/dúi/Saga Sig

Hödd Vilhjálmsdóttir hefur látið af störfum sem fjölmiðla- og samskiptastjóri forsetaframboðs Sigríðar Hrundar Pétursdóttur.

„Nei, alls ekki,“ segir Hödd aðspurð hvort þetta hætt hennar hafi borið brátt að og verið í leiðindum? En Hödd er búin að fjarlæga allar myndir af sér og frambjóðandanum af Facebook-síðu sinni.

„Við sáum þetta bara ekki sömu augum. Ég hef trú á því að einhver annar geti unnið þetta betur með henni. Þetta er topp kona og ég óska henni velfarnaðar.“

Hödd segist hafa viljað fara frá borði fyrr en seinna svo nýr fjölmiðlafulltrúi gæti sett sig inn í starfið með góðum fyrirvara. Hödd hafði verið að vinna fyrir fyrirtæki Sigríðar Hrundar, Vinnupalla, en Sigríður Hrund leitaði svo til hennar fyrir nokkrum mánuðum með að taka að sér þetta starf. Sem segir okkur að hún hefur, líkt og hún sagði sjálf á Stöð 2, verið lengi að undirbúa framboðið.

Fjölmiðlafulltrúinn og forsetaframbjóðandinn ekki í takti

„Ég sá fram á að við myndum ekki ná sama takti,“ segir Hödd og vísar til þess að Sigríður Hrund hafi ekki alltaf farið eftir óskum hennar eða tilmælum.

Óhætt er að segja að framboð Sigríðar Hrundar hafi vakið athygli og hefur hún farið ótroðnar slóðir. Eitt fyrsta verkefni Haddar var að taka á því þegar efnt var til flugeldasýningar bæði til að fagna framboðinu og afmæli Sigríðar Hrundar. 

Ekki voru leyfi til staðar fyrir flugeldunum og vöktu lætin meðal annars barn. Hödd sagði þá að uppákoman hafi verið hugmynd Baldurs Ingvarssonar eiginmanns Sigríðar Hrundar.

Frumleg eftirmæli um sjálfa sig

Sigríður Hrund hefur farið frumlegar leiðir við að vekja athygli á sér. Og hún á til að tala óháð tíma og rúmi. Þegar hún tilkynnti um framboð sitt í beinni útsendingu á Stöð 2 talaði hún um sig sem hún væri orðin forseti. Þá vakti grein sem birtist í Morgunblaðinu athygli og kom hún ýmsum spánskt fyrir sjónir þar á meðal háðfuglunum á X.

Um er að ræða einskonar viðtal sem slær svo út í að verða drög að minningargrein; „… get ég staðfest að mín eftirmæli, þegar ég flýg 95 ára, verða svohljóðandi: Óhrædd, mild, sterk, djöf, næm, ljúf, breysk, mennsk. Vegferðin var farin með gleði og kærleika að leiðarljósi í sífellu. Það er aðeins eitt kyn – mannkyn og Sigríður Hrund iðkaði mennskuna til fulls á sínu æviskeiði.“

Sigríður Hrund Pétursdóttir sendi yfirlýsingu vegna greinarinnar. Þar segir: „Hödd Vilhjálmsdóttir er framúrskarandi ráðgjafi í fjölmiðlun. Hún reyndist mér óbilandi stoð og styrkur allan þann tíma sem við unnum saman. Hennar ákvörðun að stíga frá ráðgjöf mér til handa var fyrirvaralaus en lýsir heilindum því þetta er rétti tímapunkturinn í hennar hjarta til að taka þá ákvörðun. Okkar á milli verður aldrei annað en kærleikur því hann ríkir. Ég er stolt og þakklát fyrir okkar vegferð saman og hlakka til að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér."


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×