Innlent

Tekinn með dóp í Skeifunni en sagðist hafa grætt vel á vændi

Árni Sæberg skrifar
Maðurinn var handtekinn í Skeifunni í mars og var með 419.000 krónur í fórum sér.
Maðurinn var handtekinn í Skeifunni í mars og var með 419.000 krónur í fórum sér. Vísir/Vilhelm

Karlmaður sem grunaður er um sölu og dreifingu fíkniefna sagðist í skýrslutöku hafa aflað mikils magns reiðufjár, sem fannst í fórum hans, með því að stunda vændi.

Þetta kemur fram í haldlagningarúrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, sem Landsréttur staðfesti á mánudag. Maðurinn hafði krafist þess að fá farsíma sinn, sem hafði verið haldlagður af lögreglu vegna rannsóknar málsins, afhentan. Hann fær símann ekki að svo stöddu.

Í úrskurði héraðsdóms eru fjögur lögreglumál mannsins frá mars og apríl síðasta árs reifuð. Í þeim öllum segir af því að maðurinn hafi verið handtekinn með nokkuð magn maríjúana í fórum sínum, lítið eitt af kókaíni og reiðufé.

Að sögn Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, sem krafðist þess að síminn yrði ekki afhentur, væri maðurinn grunaður um að hafa haft efnin í vörslum sínum í sölu- og dreyfingarskyni.

Maðurinn hafi hins vegar kveðið efnin vera til eigin brúks.

Í úrskurðinum segir að þegar maðurinn var handtekinn í Skeifunni í mars hafi hann verið með hinn umþrætta farsíma í fórum sínum auk reiðufjár, 419.000 krónur, 87 bandaríska dollara og 10 evrur, sem lagt var hald á.

„Við skýrslutöku 16. apríl 2023 gekkst sóknaraðili við vörslum fyrrgreindra fíkniefna en greindi frá því að þau hefðu verið ætluð til eigin neyslu. Einnig greindi hann frá því að hið fyrrgreinda reiðufé væri ágóði vændis sem hann hefði sjálfur stundað,“ segir í úrskurðinum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×