Fótbolti

„Ég er enginn dýr­lingur“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vinicius Junior fagnar einu af þremur mörkum sínum fyrir Real Madrid í gærkvöldi.
Vinicius Junior fagnar einu af þremur mörkum sínum fyrir Real Madrid í gærkvöldi. Getty/Yasser Bakhsh

Vinícius Júnior var allt í öllu þegar Real Madrid fór illa með Barcelona í úrslitaleik Ofurbikarsins í gærkvöldi en Real liðið vann leikinn á endanum 4-1.

Vinícius skoraði þrennu í leiknum þar af tvö fyrstu mörk leiksins á fyrstu tíu mínútunum. Hann kom Real seinna í 3-1 með marki úr vítaspyrnu og skoraði því þrennu í fyrri hálfleiknum.

Vinícius lenti í karpi við varamannabekk Barcelona seinna í leiknum og sjónvarpsvélarnar sýndu hann gefa merki um stöðuna í leiknum sem þá var 4-1 sem urðu síðan lokatölurnar.

„Ég er leiður yfir þessu. Allir vilja rífast við mig af því þau vita að blöðin munu skrifa: Vini gerði þetta, Vini gerði hitt. Ég reyni bara að halda ró minni og halda einbeitingunni til að gera eins vel og ég get. Þetta snýst ekki bara um mig,“ sagði Vinícius. ESPN segir frá.

Hann var valinn besti leikmaður úrslitaleiksins.

„Ég er enginn dýrlingur. Stundum tala ég of mikið, stundum reyndi ég að sóla menn þegar ég á ekki að gera það. Ég er samt hérna til að bæta mig og ég vil vera fyrirmynd fyrir krakkana. Ég vil gera betur,“ sagði Vinícius.

Vinícius fagnaði eins og Cristiano Ronaldo eftir fyrsta markið sitt en leikurinn var spilaður á Al-Awwal Park sem er heimavöllur núverandi liðs Ronaldo, Al-Nassr.

„Fögnuðurinn var fyrir Cris. Hann er átrúnaðargoðið mitt og hann er að spila hérna núna. Ég er mjög ánægður með það sem við gerðum hér í kvöld. Það er ekki auðvelt að vinna Barcelona og mjög erfitt að vinna þá 4-1. Þetta var nánast fullkominn leikur hjá okkur,“ sagði Vinícius.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×