Fótbolti

Birkir Már tekur síðasta dansinn á Hlíðar­enda

Smári Jökull Jónsson skrifar
Birkir Már mun leika með Val í sumar í Bestu deildinni.
Birkir Már mun leika með Val í sumar í Bestu deildinni. Vísir/Hulda Margrét

Birkir Már Sævarsson mun leika með Val í Bestu deildinni næsta sumar. Birkir Már verður fertugur í nóvember en samningurinn er til eins árs.

Birkir Már er uppalinn Valsari og margreyndur landsliðsmaður. Hann lék sinn fyrsta leik með félaginu árið 2003 en spilaði lengi sem atvinnumaður í Noregi og Svíþjóð.

Eftir síðasta tímabil í Bestu deildinni flutti Birkir Már ásamt fjölskyldu sinni til Svíþjóðar og hafði meðal annars verið orðaður við endurkomu til síns gamla félags Hammarby þar sem hann lék á árunum 2015-2017.

Svo verður þó ekki því að knattspyrnudeild Vals tilkynnti á Facebooksíðu sinni nú í morgun að Birkir Már hefði framlengt samningi sínum við Val og muni leika með félaginu í Bestu deildinni í sumar. Jafnframt kemur fram að þetta verði síðasta tímabil hans með Val.

„Við erum búin að koma okkur vel fyrir hérna úti en mér finnst ég enn hafa nóg fram að færa sem fótboltamaður og því langar mig að spila á eins háu leveli og mögulegt er,“ er haft eftir Birki Má í tilkynningu Vals en hann segir jafntframt að miklu máli hafi skipt að Valsmenn spila í Evrópukeppni á næsta tímabili.

Birkir Már er einn af reyndari landsliðsmönnum Íslands. Hann spilaði 103 A-landsleiki og var í íslenska liðinu sem lék á EM árið 2016 og HM 2018. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×