Innlent

„Það styttist í það eftir því sem lengur er unnið“

Rafn Ágúst Ragnarsson og Jón Þór Stefánsson skrifa
Leitin heldur áfram við erfiðar aðstæður fram í nóttina.
Leitin heldur áfram við erfiðar aðstæður fram í nóttina. Vísir

Enn er leitað að manni sem féll ofan í sprungu við framkvæmdir í Grindavík í gær. Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir í samtali við fréttastofu að aðstæður við björgunarstarfið séu erfiðar.

Aðspurður um hversu lengi verði leitað segir hann: „Helst þangað til að maðurinn finnst. Það er náttúrlega markmiðið. Það styttist í það eftir því sem lengur er unnið.“

Jón Þór segir að veðuraðstæður gera starf viðbragðsaðila erfitt þar sem mikil bleyta sé á vettvangi. Þar að auki er gríðarlega þröngt á sjálfu leitarsvæðinu og að aðeins tveir til þrír geti leitað í einu.

Mannsins hefur verið saknað síðan klukkan var að ganga ellefu í gærmorgun.

Hugur Grindvíkinga hjá aðstandendum

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld að hugur Grindvíkinga sé hjá aðstandendum mannsins.

„Þetta er auðvitað mjög óhugnanlegur atburður og gríðarlega sorglegur og þýðir það að við þurfum að leggja alla áherslu á það og brýna fyrir fólki, eins og reyndar hefur verið gert, að vera ekki á opnum svæðum þar sem sprungur kunna að leynast undir,“ sagði Fannar.

Hann útskýrði jafnframt tildrög slyssins, eins og þau eru talin hafa verið.

„Það var verið að vinna þarna að sprungufyllingu á þekktu svæði þar sem var stór sprunga. Það er búið að vera að fylla í hana að undanförnu og það var eiginlega verið að leggja lokahönd á verkið með því að þjappa fínefni og efsta laginu yfir þessa sprungu. Þannig að verkinu var nánast lokið þegar það varð þarna hrun einhvers staðar í miðri sprungunni neðarlega sem dró með sér þetta fyllingarefni sem var efst í sprungunni,“ sagði hann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×