Innlent

Minnast Ibrahims á Shalimar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fjölskylda Ibrahims ætlar að halda minningu hans á lofti um ókomna tíð.
Fjölskylda Ibrahims ætlar að halda minningu hans á lofti um ókomna tíð.

Ibrahim Shah Uz-Zaman, drengurinn sem lést í hræðilegu slysi á Ásvöllum þann 30. október síðastliðinn, hefði orðið níu ára í dag. Af því tilefni verða uppáhaldsréttir hans á Shalimar í Austurstræti á afmælistilboði.

Á minningarsíðu Ibrahims á Facebook er greint frá tilboðinu og fólk hvatt til að minnast Ibrahims með fjölskyldu hans á pakistanska veitingastaðnum í miðbæ Reykjavíkur. Réttirnir sem um ræðir eru Tandoori kjúklingur, Tikka Masala kjúklingur og grænmetis karrý.

Réttirnir verða allir seldir á 999 krónur fyrir þá sem sækja. Uz-Zaman fjölskyldan hefur rekið veitingastaðinn í á þriðja áratug.

„Við bjóðum ykkur að fagna afmæli elsku Ibrahims sem hefði orðið níu ára,“ segir í tilkynningu frá Shalimar.

Á minningarsíðu Ibrahims kemur fram að fjölskylda hans sé að stofna sjóðinn Minningarsjóður Ibrahim Shah. Sjóðinn á að nýta til að auka öryggi barna í umferðinni og fleiri verkefni til að koma boðskapi Ibrahims á framfæri og heiðra minningu hans.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og Rannsóknarnefnd samgönguslysa hafa haft adraganda slyssins til rannsóknar. Ibrahim var á reiðhjóli á bílastæði milli Ásvallalaugar og íþróttahúss Hauka þegar hann varð fyrir steypubíl. Engin vitni urðu að slysinu en lögregla telur sig hafa skýra mynd af því sem gerðist.

Fram kom í frétt Ríkisútvarpsins í gær að rannsókn lögreglu á banaslysinu væri lokið. Verið væri að safna gögnum og málið færi svo á ákærusvið sem tæki ákvörðun hvort gefin yrði út ákæra á hendur ökumanni steypubílsins.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×