Innlent

Burðarvirki sund­laugarinnar ó­traust: „Afar þung­bær á­kvörðun“

Árni Sæberg skrifar
Burðarbitarnir sem sjást vel hér eru meðal annars orðnir ótraustir.
Burðarbitarnir sem sjást vel hér eru meðal annars orðnir ótraustir. Ungbarnasund Snorra

Framkvæmdastjóri Skálatúns, sjálfseignarstofnunar í þágu barna, ungmenna og fjölskyldna, sem tók við eignarhaldi fasteigna í landi Skálatúns í Mosfellsbæ, segir ákvörðun um að loka sundlaug svæðisins hafa verið afar þungbæra.

Í tilkynningu frá Sóleyju Ragnarsdóttur, framkvæmdastjóra Skálatúns, segir að á milli jóla og nýárs á nýliðnu ári hafi nýr eigandi formlega tekið við eignarhaldi fasteigna í landi Skálatúns í Mosfellsbæ. 

Innan þess eignasafns sé sundlaug, þar sem kennt hafi verið ungbarnasund til fjölda ára við góðan orðstír. 

„Ætlun nýrra eigenda var alla tíða að sá rekstur myndi halda áfram, enda merk saga ungbarnasunds í lauginni sem mikill vilji var til þess að héldi þar áfram.“

Síðla árs hafi borist upplýsingar um að ástand húsnæðisins sem laugin er í væri ekki eins og best væri á kosið og ákveðið hafi verið að fá fagmenn til þess að skoða húsnæðið og meta ástand þess. Út úr þeirri skoðun hafi sú niðurstaða komið að ástand húsnæðisins er afar slæmt. Það sem vegur þyngst sé að burðarbitar sem halda uppi þaki og veggjum laugarinnar séu mjög fúnir og illa farnir. Ástand burðarvirkis sé þannig ótraust og metið óöruggt.

„Nýr eigandi tók á þessum grundvelli þá afar þungbæru ákvörðun að starfsemi gæti ekki haldið áfram í sundlauginni á grundvelli öryggissjónarmiða, ekki síst með hliðsjón af því um hvers konar starfsemi er að ræða.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×