Fótbolti

Sakaði þjálfarann um að stela treyju og fær ekki að fara á Afríku­mótið

Sindri Sverrisson skrifar
Morlaye Sylla hefur spilað á þriðja tug landsleikja fyrir Gíneu en fær ekki að fara á Afríkumótið.
Morlaye Sylla hefur spilað á þriðja tug landsleikja fyrir Gíneu en fær ekki að fara á Afríkumótið. Getty/Mustafa Ciftci

Morlaye Sylla, miðjumaður Gíneu, er ekki á leiðinni á Afríkumótið í fótbolta eftir að hafa sakað þjálfara landsliðsins um að stela frá sér treyju sem hann fékk frá brasilísku stjörnunni Vinícius Junior.

Afríkumótið hefst eftir hálfan mánuð og þar mætir Gínea liði Kamerún í fyrsta leik, og svo einnig Gambíu og ríkjandi meisturum Senegals.

Það gerir Gínea hins vegar án Sylla, sem er leikmaður Arouca í Portúgal, en hann mun hafa lent í rifrildi við liðsfélaga sína í landsliðinu og þjálfara sinn í kjölfarið á 4-1 tapi í vináttulandsleik gegn Brasilíu í júní.

Eftir leikinn við Brasilíu skipti hinn 25 ára gamli Sylla á treyju við ofurstjörnuna Vinícius Junior, sem leikur með Real Madrid. En treyjan sem Sylla eignaðist var fljót að hverfa því hún gufaði upp í búningsklefanum.

Sylla mun hafa verið í öngum sínum og sakað liðsfélaga sína um þjófnað, áður en hann beindi spjótum sínum að sjálfum þjálfaranum Kaba Diawara. Sylla krafðist þess meira að segja að leitað yrði í töskum manna til að komast að því hvar treyjan væri niður komin.

Miðjumaðurinn, sem á að baki 23 A-landsleiki, hefur ekki beðist afsökunar á hegðun sinni og það virðist hafa kostað hann sæti í landsliðshópnum fyrir Afríkumótið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×