Fótbolti

Fær 206 milljónir í laun og er orðin sú launhæsta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Maria Sanchez er landliðskonan Mexíkó og fagnar hér marki með landsliði sínu.
Maria Sanchez er landliðskonan Mexíkó og fagnar hér marki með landsliði sínu. Getty/Manuel Guadarrama

Maria Sánchez er nú orðin launahæsti leikmaður bandarísku kvennadeildarinnar í fótbolta eftir að hún skrifaði undir nýjan samning við Houston Dash.

Mexíkanska landsliðskonan skrifaði undir þriggja ára samning og fær eina og hálfa milljón Bandaríkjadala fyrir hann eða 206 milljónir íslenskra króna.

Hin 27 ára gamla Sánchez var með lausan samning og það voru önnur tilboð í boði þar á meðal frá liðum í heimalandinu. Hún valdi hins vegar skiljanlega þennan góða samning hjá Houston.

Með þessu ýtir hún líka Trinity Rodman úr efsta sætinu á listanum yfir launahæsta leikmenn deildarinnar. Rodman skrifaði undir fjögurra ára samning við Washington Spirit árið 2022 og fékk fyrir hann 1,1 milljón dollara.

Sánchez hefur hækkað sig verulega í launum síðan hún kom inn í deildina árið 2019. Þá fékk hún aðeins tæplega fimmtán þúsund dollara í árslaun eða um tvær milljónir króna. Hér eftir verða árslaun hennar í kringum 68 milljónir króna.

Á þessum tíma hefur hún 34-faldað launin sín. Það sýnir líka um leið hvað kvennafótboltinn er að stækka hratt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×