Fótbolti

Messi mætir æskufélaginu sínu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Auglýsing um leikinn með mynd af Lionel Messi og þjálfaranum Gerardo Martino sem báðir þekkja vel til Newell's Old Boys.
Auglýsing um leikinn með mynd af Lionel Messi og þjálfaranum Gerardo Martino sem báðir þekkja vel til Newell's Old Boys. @Inter Miami CF

Þetta verður viðburðaríkt undirbúningstímabil hjá bandaríska fótboltafélaginu Inter Miami og nú hefur bæst við athyglisverður leikur.

Miami liðið er á leiðinni til Sádi Arabíu um mánaðamót janúar og febrúar þar sem Lionel Messi og Cristiano Ronaldo mætast mögulega í síðasta sinn á ferlinum. Bandaríska liðið fer líka til Hong Kong og Japan á þessu fyrsta undirbúningstímabili sínu frá því að Messi samdi við félagið.

Nýjasti leikurinn á dagskrá undirbúningstímabilsins hefur aftur á móti mikið tilfinningaríkt vægi fyrir einn allra besta knattspyrnumann sögunnar. Miami mun nefnilega líka fá heimsókn frá argentínska félaginu Newell's Old Boys 15. febrúar. Leikurinn fer fram á DRV PNK leikvanginum í Fort Lauderdale á Flórída.

Newell's Old Boys er æskufélag Messi og liðið er frá fæðingarborg hans Rosario. Messi spilaði með því áður en hann fór til Barcelona þrettán ára gamall.

Þjálfarinn Gerardo Martino er einnig að mæta sínu gamla félagi því hann spilaði með liðinu á sínum tíma og er leikjahæsti leikmaður félagsins frá upphafi.

„Ég er ánægður að geta boðið Newell liðið velkomið til okkar hér í Maimi. Þetta verður sérstakur leikur vegna þessu hversu mikla þýðingu Newell's Old Boys hefur fyrir mig. Þetta verður líka gott tækifæri fyrir okkur til að undirbúa okkur fyrir það sem gæti orðið mjög spennandi tímabil,“ sagði Gerardo Martino í yfirlýsingu frá félaginu. Leikurinn á móti argentínska liðinu fer fram eftir ferðalagið til Asíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×