Innlent

Vinna við að loka gati á varnargarði

Oddur Ævar Gunnarsson og Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifa
Helgi Karl Brynjarsson, vettvangsstjóri lögreglunnar á Suðurnesjum.
Helgi Karl Brynjarsson, vettvangsstjóri lögreglunnar á Suðurnesjum. Vísir/Lillý

Lögreglan á Suðurnesjum hefur lokað svæðinu að nýju við Grindavík. Einungis eru eftir starfsmenn verktaka sem vinna við að loka gati á varnargarði við Grindavíkurveg og við Bláa lónið.

Þetta segir Helgi Karl Brynjarsson, vettvangsstjóri lögreglunnar á Suðurnesjum, í samtali við fréttastofu. Eins og fram hefur komið hófst gos við Hagafell, nærri bænum í kvöld.

„Á forsendum öryggis þá rýmum við bæinn aftur. Tvær lögreglubifreiðar eru inn í Grindavík. Svo erum við með lokunarpóst við Nesveg, hérna við Grindavíkurveg og Suðurstrandarveg. Þar er búinn að vera lokunarpóstur síðan hann var settur á og við höfum lagt áherslur á lokanir og að passa upp á það að enginn sé inni á svæðinu.“

Hverjir eru inni á svæðinu núna?

„Núna eru semsagt starfsmenn, það var hluti af ákveðnu skipulagi sem var það að loka varnarveggnum með ýtu. Þetta eru mismunandi starfsmenn verktaktafyrirtækja sem eru að fara í það núna að loka þessum varnarvegg.“

Loka gati?

„Já, það var skilið eftir gat á Grindavíkurvegi og við Bláa lónið.“

Hvað vitum við núna?

„Við vitum lítið nema bara það sem við sjáum. Það er gos Grindavíkurmegin við Þorbjörn. Það er svona það augljósa.“

Einn bíll eftir að skafa

Er þetta stór sprunga?

„Eins og við sáum er þetta ansi stórt en við höfum ekkert mælt það.“

Þið vitið ekki til þess að neinn sé í Grindavík núna? Er búið að rýma bæinn?

„Það var einn bíll að skafa. Það var sá eini sem fór upp í Grindavík þegar við vorum að rýma.“

Er viðbragð í Grindavík eða er enginn í bænum?

„Það eru ennþá tvær lögreglubifreiðar, þær ættu að vera að koma út úr Grindavík núna eftir að hafa rýmt bæinn.“

Er einhver hætta sem steðjar af Grindavík af þessu gosi?

„Ég bara er ekki með það á hreinu.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×