Innlent

Segir sátta­semjara valdlausan

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir núverandi hlutverk ríkissáttasemjara vera að bjóða upp á kaffi.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir núverandi hlutverk ríkissáttasemjara vera að bjóða upp á kaffi. Vísir/Vilhelm

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, skrifaði pistil sem birtist á Vísi í dag þar sem hún lýsir verkfalli flugumferðarstjóra á Keflavíkurflugvelli sem skæruaðgerðum og gagnrýnir aðgerðarleysi yfirvalda.

Hún segir kröfur þeirra ósanngjarnar og hafi þegar valdið tjóni upp á annan milljarð króna. Sigríður kallar embætti sáttasemjara fyrst og fremst „gestgjafa“ og segir það sem hann geti boðið upp á vera „fundaraðstaða og kaffi.“

Heimildir víðtækari á Norðurlöndum

„Embættið hefur í raun engar leiðir til þess að framfylgja þeirri launastefnu sem hefur verið mörkuð í samningum á almennum vinnumarkaði. Á hinum Norðurlöndunum hafa ríkissáttasemjarar almennt víðtækari heimildir,“ segir Sigríður.

Hún segir ríkissáttasemjara vera í raun valdlausan á Ísland miðað við hin Norðurlöndin og að það birtist í agaleysi hagstjórnarinnar hér á landi.

Óstöðugleiki og ófriður

„Samtök atvinnurekenda og launafólks eru öflugt og mikilvægt hreyfiafl í samfélaginu, veita stjórnvöldum aðhald og geta sameiginlega stuðlað að framförum mikilvægra mála – þvert á stjórnmálaflokka og fram yfir kjörtímabil,“ skrifar Sigríður.

„Að óbreyttu mun óstöðugleiki og ófriður halda áfram að ógna þeim lífsgæðum sem okkur hefur tekist að byggja upp saman,“ heldur hún áfram.

Hún skrifar jafnframt að hún vonist til þess að yfirstandandi verkföll valdi því að aðilar vinnumarkaðarins eigi opið samtal um hvernig bæta megi vinnumarkaðslíkanið.

„Þá má einnig vona að stjórnvöld finni hjá sér hugrekkið og breyti hlutverki gestgjafans í Karphúsinu og geri honum kleift að vera ríkissáttasemjari,“ segir Sigríður að lokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×