Innlent

Hjálparbeiðnum fjölgar mikið og enn meiri dýr­tíð spáð í desem­ber

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Guðný er ekki í nokkrum vafa um hvers vegna beiðnum hefur fjölgað svo mikið. Verðbólgan stendur í átta prósentum og greiningardeildir bankanna spá meiri verðbólgu í desember.
Guðný er ekki í nokkrum vafa um hvers vegna beiðnum hefur fjölgað svo mikið. Verðbólgan stendur í átta prósentum og greiningardeildir bankanna spá meiri verðbólgu í desember. vísir/sigurjón

Hjálparbeiðnum hefur fjölgað mikið hjá Hjálparstarfi kirkjunnar og neyðin í samfélaginu er gríðarleg. Þetta segir félagsráðgjafi hjálparsamtakanna. Verðbólgan sé augljós skaðvaldur en greiningardeildir bankanna spá enn meiri dýrtíð í desember.

Við sögðum frá því í hádegisfréttum Bylgjunnar að metfjöldi hefði leitað jólaaðstoðar hjá Mæðrastyrksnefnd Hafnarfjarðar og að mun fleiri barnafjölskyldur þurfi aðstoð nú en áður. 

Þetta rímar við upplifun starfsfólks Hjálparstarfs kirkjunnar á þeirri neyð sem ríkir í samfélaginu.

„Það er gríðarleg aukning hjá okkur og sérstaklega fyrir jólin og svo eru náttúrulega rosalega margir sem eru að koma aftur til okkar sem hafa ekki komið í mörg ár sem segir okkur það að róðurinn er farinn að þyngjast hjá rosalega mörgum. Þetta er náttúrulega fólk sem var komið á góðan stað fjárhagslega en það er bara komið aftur, þannig að neyðin er rosalega mikil,“ segir Guðný Helena Guðmundsdóttir.

Guðný er ekki í nokkrum vafa um hvað það er sem veldur. Það er verðbólgan sem stendur nú í átta prósentum. Ekki sér fyrir endann á dýrtíðarbálinu því greiningardeild Landsbankans spáir því að verðbólgan í desember verði 8,1prósent en greiningardeild Íslandsbanka telur hana munu nema 8,3 prósentum.

„Nú er hver hækkunin á fætur annarri. Veskið finnur vel til.“

Á miðnætti var lokað fyrir umsóknir um jólaaðstoð og úthlutun er hafin. Guðný segir að fyrir jólin hafi þau ætíð hækkað upphæð matarkortanna í desember en ekki í ár því þau höfðu einfaldlega ekki fjármagnið til þess. Hún biðlar til fólks og fyrirtækja.

„við sendum út styrkbeiðnir í heimabankann nú fyrir jólin. Fólk getur til dæmis greitt það. Svo erum við með gjafabréf til sölu, hér eru til dæmis tvö; inneignarkort og jólagjöf fyrir börn,“ segir Guðný Helena. Þau taki líka við frjálsum framlögum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×