Innlent

Sagði frið ekki nást án rétt­lætis

Atli Ísleifsson skrifar
Frá tvíhliða fundi Volodimír Selenskí Úkraínuforseta og Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í Osló í morgun.
Frá tvíhliða fundi Volodimír Selenskí Úkraínuforseta og Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í Osló í morgun. EPA

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lagði áherslu á að friður í Úkraínu myndi ekki nást án réttlætis. Hún sagði íslensk stjórnvöld vinna að því með öðrum innan Sameinuðu þjóðanna að koma sérstökum glæpadómstól vegna innrásar Rússa í Úkraínu.

Þetta sagði Katrín á sameiginlegum fréttamannafundi leiðtoga Norðurlandanna og Volodomír Selenskí Úkraínuforseta í Osló um hádegisbil í dag.

Katrín þakkaði Selenskí sérstaklega fyrir að taka sér tíma til að hitta leiðtogana. Hún sagði fundurinn í morgun hafa verið merkingarmikinn þar sem mikilvægt væri að árétta stuðning Norðurlandanna í garð Úkraínu.

Frá blaðamannafundinum í hádeginu. EPA

Forsætisráðherra sagði ennfremur að unnið sé að því núna að finna út úr því hvernig Ísland muni styðja við Úkraínu á næsta ári og á næstu árum. Eðli málsins samkvæmt verði sá stuðningur borgaralegur og pólitískur alls staðar þar sem því verður komið við.

Hún rifjaði upp að færanlegt sjúkrahús sem íslensk stjórnvöld hafi fært Úkraínumönnum að gjöf hafi nú verið tekið í notkun. Þá hafi verið verið ánægjulegt að sjá framvinduna þegar kemur að þeirri tjónaskrá sem tekur til eignaskemmda, manntjóns og alvarlegra meiðsla sem orðið hafa í stríði Rússlands í Úkraínu. Að koma á tjónaskrá var ein helsta niðurstaða leiðtogafundar Evrópuráðsins í Reykjavík í maí.

Katrín tók í morgun þátt í leiðtogafundi Norðurlandanna með Selenskí, en gestgjafi fundarins er Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, og aðrir þátttakendur eru Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, Sauli Niinistö, forseti Finnlands, og Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar.

Órofa stuðningur

Á fundinum var rætt um áframhaldandi órofa stuðning Norðurlandanna við Úkraínu, en í sameiginlegri yfirlýsingu fundarins er einnig lögð áhersla á að Rússar verði dregnir til ábyrgðar fyrir stríðsglæpi sína í Úkraínu.

„Norðurlöndin lýsa yfir fullum stuðningi við friðaráætlun Úkraínu sem byggir á réttlátum og varanlegum friði og munu áfram vinna á alþjóðavettvangi að framgangi áætlunarinnar. Þá segir í yfirlýsingunni að framtíð Úkraínu liggi í hópi lýðræðisríkja Evrópu og að Norðurlöndin muni áfram styðja Úkraínu á leið sinni að aðild að Atlantshafsbandalaginu,“ segir í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu. 

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, Sauli Niinistö, forseti Finnlands, og Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur.Stjr

Frekari tækifæri til samstarfs

Forsætisráðherra átti einnig tvíhliða fund með Úkraínuforseta þar sem þau ræddu meðal annars stuðning Íslands við Úkraínu og frekari tækifæri til og samstafs.

„Stuðningur Íslands hefur fyrst og fremst verið veittur í gegnum alþjóðastofnanir á borð við Rauða krossinn, Sameinuðu þjóðirnar, Alþjóðabankann og Atlantshafsbandalagið og tengst mannúðarmálum, efnahagsaðstoð og varnaraðstoð. Ísland styður einnig við sérstök verkefni á borð við „Grain from Ukraine“ sem snýst um að koma korni frá Úkraínu til Afríkuríkja og alþjóðabandalag um endurheimt úkraínskra barna. Þá ræddu Katrín og Zelensky um tjónaskrána sem komið var á fót á leiðtogafundi Evrópuráðsins í Reykjavík í maí sl. en góður gangur hefur verið í því verkefni. Róbert Spanó, fyrrum forseti Mannréttindadómstóls Evrópu, var kjörinn formaður stjórnar verkefnisins í vikunni.

Loks átti forsætisráðherra tvíhliða fund með Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs. Þar ræddu ráðherrarnir um málefni Úkraínu, stöðu mála á Gasa og loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28,“ segir í tilkynningu forsætisráðuneytisins um leiðtogafundinn.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×