Innlent

Engin lofts­lag­skrísa ef aðrir hefðu farið ís­lensku leiðina

Bjarki Sigurðsson skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Vísir/Vilhelm

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra segir Ísland vera fyrirmynd fyrir önnur ríki þegar kemur að mörgum hliðum grænnar orku. Ef aðrar þjóðir hefðu farið fyrr eftir fordæmi Íslands hvað varðar orkumál væri líklegast ekki loftslagskrísa. 

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, er kominn heim af COP28 loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem farið hefur fram í Sameinuðu arabísku furstadæmunum síðustu daga. Ráðstefnunni lýkur formlega á þriðjudag en margir þeirra ráðamanna sem mættu eru farnir heim.

Guðlaugur segir Íslendinga vera fyrirmynd fyrir mörg ríki sem sendu fulltrúa á ráðstefnuna.

„Aðrir líta til okkar út af því sem áður var gert í grænni orku á Íslandi. Því ef allar þjóðir færu leiðina sem við fórum þá værum við ekki að horfa á þessi vandamál. Menn eru sérstaklega að horfa til jarðvarmans. Við Íslendingar erum ekki bara stórir hér, þó við verðum að gera betur því við höfum sofið á verðinum, heldur um allan heim og fyrirtæki sem er í stærstum hluta í eigu Íslendinga á fjörutíu prósent af öllum jarðboruholum um allan heim,“ segir Guðlaugur. 

Guðlaugur bendir á að ekki sé komin niðurstaða COP28 og að hún komi alla jafna á síðustu stundu. Þó sé gríðarleg lest farin af stað, sérstaklega vegna aðgerða Bandaríkjamanna.

„Umfangið á grænum lausnum þar er svo gríðarlegt að maður getur ekki útskýrt það. En aðalatriðið er þetta, heimurinn er að fara grænu leiðina. Í því felast gríðarleg tækifæri fyrir Íslendinga en það er okkar að nýta þau ef við viljum. Það er gott að sjá hvað það eru mörg íslensk fyrirtæki sem eru nú þegar framarlega, ekki bara í jarðvarmanum,“ segir Guðlaugur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×