Í tilkynningu sem send var á foreldra barna í Grunnskóla Grindavíkur í dag segir að áfram verði starfræktur safnskóli á höfuðborgarsvæðinu sem muni starfa með sama sniði þar til hægt verði að flytja starfsemina aftur til Grindvavíkur.
Þá eiga börnin einnig að geta áfram sótt skóla þar sem þau eru búsett í dag.
Skólasókn grunnskólabarna frá Grindavík er enn um 95 prósent, þó börnin séu á víð og dreif um landið.
Þó börnin sæki samtals 65 skóla í 28 sveitarfélögum um allt land, sækir ríflega helmingur barnanna safnskóla Grunnskóla Grindavíkur en hann er starfræktur á fjórum stöðum í Reykjavík.
Boðið er upp á skólarútur fyrir börnin frá Suðurlandi, Suðurnesjum og nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur svo þau geti sótt safnskólana.