Innlent

Gæfi flug­um­ferðar­stjórum kar­töflu í skóinn

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir boðaðar verkfallsaðgerðir flugumferðastjóra fráleitar.
Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir boðaðar verkfallsaðgerðir flugumferðastjóra fráleitar. Vísir/Vilhelm

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir fráleitt að flugumferðarstjórar boði nú til þriðja verkfallsins á fimm árum á meðan unnið sé að gerð nýrrar þjóðarsáttar á meðal allra aðila vinnumarkaðarins.

Flugumferðarstjórar munu að óbreyttu leggja niður störf á þriðjudags- og fimmtudagsmorgun í næstu viku. Samningar milli þeirra og Isavia hafa verið lausir í rúma tvo mánuði. Kosningu meðal flugumferðarstjóra um verkfallsaðgerðir lauk á sunnudaginn og samþykkti yfirgnæfandi meirihluti þeirra að boða til verkfalls.

Nýr fundur hefur ekki verið boðaður í kjaradeilu Félags flugumferðarstjóra og Isavia og því virðist lausn ekki í sjónmáli. Samtök atvinnulífsins sjá um að semja fyrir hönd Isavia og segir Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins að fjöldi kjarasamninga sé að losna á næstunni og að unnið sé að því að ná breiðri sátt á meðal launafólks og atvinnurekenda. 

„Við gerum að vinna að gerð nýrrar þjóðarsáttar á meðal allra aðila vinnumarkaðarins. Við erum að vinna að þessu verkefni með aðkomu ríkisstjórnarinnar og skýrum yfirlýsingum sveitarfélaganna um að þeirra gjaldskrár muni ekki raska stöðugleika.“

Hún telur því fráleitt að flugumferðarstjórar séu núna að boða til þriðja verkfallsins á fimm árum.

„Vegna þess að verkefnið sem að við stöndum frammi fyrir er að ná niður þessari 8% verðbólgu og stýrivöxtum sem að eru 9,25% og hafa alveg gríðarleg mikil áhrif á daglegan rekstur bæði heimila og fyrirtækja. Það er bara einfaldlega ekki annað í boði núna heldur en að við séum að gera langtímakjarasaminga sem er innistæða fyrir til þess að ná aftur stöðugleika og að verja bæði samkeppnishæfni landsins og lífskjörin í þessu landi.“

Ljóst er að verkfall Félags flugumferðarstjóra, ef til þess kemur, getur haft víðtæk áhrif á ferðalög yfir jólahátíðina.

„Ef ég væri jólasveinninn þá myndi ég gefa flugumferðarstjórum kartöflu í skóinn,“ segir Sigríður Margrét. 


Tengdar fréttir

Flugumferðarstjórar boða til verkfalls í næstu viku

Flugumferðarstjórar munu að óbreyttu leggja niður störf á þriðjudags- og fimmtudagsmorgun í næstu viku. Samningar milli þeirra og Isavia hafa verið lausir í rúma tvo mánuði og formaður Félags flugumferðarstjóra segir enn töluvert bera í milli.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×