Innlent

Segir mál drengjanna skera sig í hjartað

Jón Þór Stefánsson skrifar
„Við viljum að kerfið okkar virki þannig að það taki utan um börn í þessari stöðu,“ segir  Ásmundur Einar mennta- og barnamálaráðherra.
„Við viljum að kerfið okkar virki þannig að það taki utan um börn í þessari stöðu,“ segir Ásmundur Einar mennta- og barnamálaráðherra. Vísir/Vilhelm/Dúi

Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra hefur kallað eftir gögnum um palestínsku drengina Sameer Omran, 12 ára, og Yazan Kawave, 14 ára, sem á að vísa úr landi. 

Hann segir að málið sé í raun ekki á sínu borði, en vill vera viss um að rétt hafi verið farið að í máli þeirra. Hann segist treysta kerfinu til þess.

„Það er auðvitað þannig að við gerum ráð fyrir því að það sé unnið sérstakt hagsmunamat gagnvart börnum, að þeirra staða sé skoðuð sérstaklega.“ segir Ásmundur.

Hann útskýrir að sjálfstætt hagsmunamat eigi að vera unnið um hvert barn í stöðu sem þessari sem sé síðan notað til að komast að niðurstöðu um mögulega vistun eða brottvísun þess. Gögnin sem hann hafi kallað eftir sé umrætt mat og hvort að það hafi verið gert yfirhöfuð.

„Ég vonast til að kerfið okkar sé að virka þannig að þessum ferlum sé fylgt og að þessir drengir falli þar undir. Og ég hef trú á því að það eigi að geta gert það.“

Aðspurður um hvað honum finnist um sjálft málið segir Ásmundur: „Þetta sker mann í hjartað.“

„Staðan í Gasa, það sem þessir drengir og börn almennt í Gasa eru að ganga í gegnum þessi dægrin er eitthvað sem við getum ekki einu sinni sett okkur inn í. Þannig að við viljum að kerfið okkar virki þannig að það taki utan um börn í þessari stöðu,“

Jafnframt segist hann vona að „hið mannlega nái að skina í gegn“ í máli drengjanna og að þeirra mál fái „góða lendingu“.

Fjallað var um mál drengjanna í kvöldfréttum Stöðvar 2 í fyrradag. Innslagið má sjá hér að neðan.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×