Innlent

Söfnunin tók kipp: „Greinilegt að þetta snerti ein­hvern streng“

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Pökkunum hefur sýnilega fjölgað mikið síðan um helgina.
Pökkunum hefur sýnilega fjölgað mikið síðan um helgina. Vísir/Silja

Jólagjafasöfnun mæðrastyrksnefndar hefur svo sannarlega tekið kipp eftir umfjöllun helgarinnar um dræma þátttöku í söfnuninni. Markaðsstjóri Kringlunnar segir nú 2,5 milljónir hafa safnast af fjárframlögum auk fjölda pakka sem komið hefur verið fyrir undir jólatrénu í Kringlunni. 

Athygli vakti um helgina þegar Baldvina Snælaugsdóttir markaðsstjóri Kringlunnar lýsti yfir áhyggjum af dræmri þátttöku í söfnuninni, sem fer fram ár hvert í verslunarmiðstöðinni. „Ég vona bara að þetta taki kipp. Þetta hefur áður farið rólega af stað og tekið kipp en þetta er óvenjulegt, þess vegna hefur maður áhyggjur,“ sagði Baldvina í samtali við Vísi á laugardag.

Nú segir Baldvina horfurnar mun betri. „Það er greinilegt að þetta snerti einhvern streng, að það væri að ganga svona illa að safna jólagjöfum handa börnunum okkar,“ segir hún. 

„Það fór allt af stað strax á laugardaginn. Þá fóru að myndast raðir við innpökkunarborðin,“ segir Baldvina, og segir pökkunum hafa fjölgað ört og fjárframlögum líka. 

Raunhæft að metinu verði náð

Auk pakkasöfnunarinnar er hægt að styrkja verkefnið með frjálsum framlögum á vefsíðu Kringlunnar. Baldvina segir að í morgun hafi ótrúlegar tölur komið upp úr bókhaldinu þegar staða söfnunarinnar var skoðuð. „Það voru 2,5 milljónir sem komu á laugardag og sunnudag, þetta er alveg ótrúlegt,“ segir Baldvina. 

Baldvina Snælaugsdóttir er markaðsstjóri Kringlunnar.

Aðspurð segir Baldvina að þegar best lét hafi framlögin numið um þrjár milljónir króna, þá fyrir allan desembermánuð. Hún segir því raunhæft markmið að metið verði slegið í ár.  

Baldvina segist himinlifandi yfir árangrinum og að skipuleggjendur verkefnisins hafi tekið gleði sína á ný eftir helgina.  „Bara vá, ég trúi þessu varla,“ segir Baldvina að lokum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×