Ríkisstjórn boðar í þingmálaskrá sinni að leggja fram 212 frumvörp á þessum vetri. Um eða yfir hundrað þeirra voru boðuð á haustþingi. Stutt er eftir af þingstörfum fram að jólum.
„Það er nokkuð sem ég hef bent á að þingmálaskrár eiga það til að vera heldur bjartsýnar fyrir hönd ráðherra. Þannig að vissulega er það rétt að það eru ekki öll mál komin fram sem áætluð voru á þingmálaskrá,“ segir Katrín.
Eru þínir ráðherrar seinir að afgreiða frá sér jafnvel mikilvæg mál. Mál sem ríkisstjórnin hefur talið að væri mikilvægt að kæmu fram?

„Það er auðvitað fullt af mikilvægum málum komin inn í þingið. Sjálf er ég hins vegar ekki komin með öll þau mál sem ég ætlaði að vera komin fram með. Þá hafa einhver atriði komið upp á sem þarf að skoða betur. Ég vonast til að þetta fari allt að taka við sér núna,“ segir forsætisráðherra.
Önnur og mikilvægasta umræða um fjárlagafrumvarpið átti að hefjast á þriðjudag í síðustu viku og er ekki á dagskrá Alþingis í þessari viku.
„Ríkisstjórnin er fyrir all löngu búin að afgreiða sínar tillögur fyrir aðra umræðu. En mér skilst að forseti þingsins ætli sér að setja á þessa umræðu í næstu viku. Auðvitað á síðan eftir, áður en málinu er lokað, það er að segja í þriðju umræðu, að taka sérstaklega til skoðunar það sem varðar fjárútlát vegna jarðhræringa í Grindavík og hvernig við höldum á þeim málum. Þetta er bara eins og þetta er. Þetta þarf kannski ekki endilega að koma mikið á óvart heldur,“ segir Katrín Jakobsdóttir.
Rætt var við forsætisráðherra í kvöldfréttum Stöðvar 2. Viðtalið má sjá í lok fréttarinnar í spilaranum hér að neðan: