Fótbolti

Mata meistari í tveimur mis­munandi löndum á þessu ári

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Juan Mata varð tyrkneskur meistari með Galatasaray í vor.
Juan Mata varð tyrkneskur meistari með Galatasaray í vor. Getty/Ahmad Mora

Spænski knattspyrnumaðurinn Juan Mata er enn að spila og enn að vinna titla. Hann vann deildir í tveimur löndum á þessu ári og endaði með því langa bið sína.

Juan Mata er þekktastur fyrir tíma sinn hjá Chelsea og Manchester United en hann náði þó aldrei að vinna enska meistaratitilinn, hvorki með Chelsea né United.

Mata náði heldur ekki að vinna spænsku deildina með Valencia áður en hann kom til Englands. Hann varð þó einu sinni bikarmeistari á Spáni og tvisvar bikarmeistari í Englandi. Mata varð líka heimsmeistari og Evrópumeistari með spænska landsliðinu.

Mata yfirgaf enska boltann sumarið 2022 og samdi við Galatasaray í Tyrklandi.

Mata varð síðan loksins landsliðsmeistari á þessi ári.

Spánverjinn vann nefnilega tyrkneska meistaratitilinn með Galatasaray í vor en framlengdi ekki samning sinn heldur gekk til liðs við Vissel Kobe í Japan. Mata var með 3 mörk og 1 stoðsendingu í sextán leikjum með tyrkneska liðinu.

Mata skrifaði undir samning við Vissel Kobe í september og vann um helgina japanska meistaratitilinn með félaginu. Mata spilaði þó aðeins tíu mínútur í einum leik en fékk þó að lyfta bikar í annað skiptið á þessu ári.

Hann varð því meistari í tveimur löndum á þessu ári eftir að hafa aldrei orðið landsmeistari á fyrstu sextán tímabilum sínum á ferlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×