Fótbolti

Selja miða sem gilda þó ekki ef Messi spilar leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi fagnar hér marki með Inter Miami en margir bíða spenntir eftir fyrsta heila tímabili hans í MLS deildinni.
Lionel Messi fagnar hér marki með Inter Miami en margir bíða spenntir eftir fyrsta heila tímabili hans í MLS deildinni. Getty/Andy Lyons

Bandaríska fótboltaliðið New York Red Bulls er að bjóða stuðningsmönnum sínum sérstakt tilboð fyrir hátíðirnar. Það er samt eins gott þó að kaupendur lesi smáa letrið.

Það er ekki búið að draga í leikjaröð fyrir næsta tímabil í MLS deildinni í Bandaríkjunum og því vita kaupendur ekki við hverja liðið þeirra er að fara spila í öðrum þessara leikja.

Tilboðið er upp að að kaupa miða á fyrsta heimaleik New York liðsins á næstu leiktíð sem og að fá miða á heimaleikinn á móti nágrönnunum í New York City FC.

Það er þó ekki eins og þeir geti veðjað á það að leikurinn verði á móti Lionel Messi og félögum í Inter Miami.

Smáa letrið er nefnilega þannig að miðinn mun ekki gilda á þennan fyrsta heimaleik ef leikurinn er á móti Messi og félögum. Jú það er Messi klásúla.

Verði leikurinn á móti Inter Miami þá gildir miðinn ekki á þann leik heldur á næsta heimaleik liðsins á eftir honum.

Miðarnir eru að seljast frá bilinu 98 dollurum í ódýrustu sætin allt upp í 495 dollara fyrir miða í svítunum. Þetta er í íslenskum krónum frá fjórtán þúsundum til sjötíu þúsund krónur.

Það er aftur á móti ljóst að ef miðarnir væru á leik með Messi þá væri þetta sannkallað útsöluverð. Miðarnar á leiki Messi hafa rokið upp enda áhuginn mikill á einum allra besta fótboltamanni sögunnar.

Forráðamenn New York Red Bulls hafa því varann á.

Þetta verður fyrsta fulla tímabil Messi með Inter Miami. Hann fór á kostum í bikarkeppnunum en í deildinni skoraði hann aðeins eitt mark í sex leikjum. Þeir sem þekkja argentínska snillinginn vita að það er von á miklu meiru frá honum í MLS-deildinni 2024.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×