Fótbolti

Segir að vand­ræða­lega lé­legir dómarar hafi rænt Chelsea sigri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Það sauð á Emmu Hayes eftir leik Real Madrid og Chelsea í Meistaradeild Evrópu.
Það sauð á Emmu Hayes eftir leik Real Madrid og Chelsea í Meistaradeild Evrópu. getty/Angel Martinez

Þjálfari kvennaliðs Chelsea í fótbolta, Emma Hayes, var vægast sagt ósátt við frammistöðu dómaranna í 2-2 jafntefli við Real Madrid á Spáni í Meistaradeild Evrópu í gær.

Tvær stórar ákvarðanir féllu Chelsea í óhag undir lok leiksins. Ekki er notast við VAR í Meistaradeild kvenna.

„Ég man ekki hvenær tvær svona risastórar ákvarðanir féllu gegn okkur,“ sagði Hayes eftir leikinn.

Madrídingar fengu vítaspyrnu á 77. mínútu þrátt fyrir að Jessie Fleming hafi brotið á Atheneu del Castillo fyrir utan teig. Olga Carmora jafnaði í 2-2 úr vítinu.

„Frá bekknum sá ég að tæklingin var fyrir utan teig. Ég er í áfalli yfir að dómararnir hafi ekki séð það. Auðvitað ætti Jessie ekki að tækla á þessu svæði en þetta var klárlega fyrir utan teig. Það er erfitt þegar svona stórar ákvarðanir falla gegn þér þegar þú ert með stjórn á leiknum á þessu getustigi,“ sagði Hayes.

Chelsea freistaði þess að skora sigurmark undir lokin og Niamh Charles hélt hún hefði gert það í uppbótartíma þegar hún stýrði fyrirgjöf Millie Bright í netið. Markið var hins vegar ranglega dæmt af vegna rangstöðu.

„Við skoruðum fullkomlega löglegt mark. Þetta er vandræðalegt. Við vorum rænd því sem hefði átt að vera 3-1 sigur,“ sagði Hayes ósátt.

Í fyrradag var greint frá því að Hayes tæki við bandaríska landsliðinu eftir tímabilið. Hún hefur stýrt Chelsea frá 2012 með frábærum árangri.

Auk Chelsea og Real Madrid eru Häcken og Paris FC í D-riðli Meistaradeildarinnar. Næsti leikur Chelsea er gegn Paris FC á heimavelli 23. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×