Fótbolti

Hákon valinn mark­vörður ársins í Sví­þjóð

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Hákon Rafn átti frábært tímabil í marki Elfsborg.
Hákon Rafn átti frábært tímabil í marki Elfsborg. Twitter@IFElfsborg1904

Hákon Rafn Valdimarsson, markvörður Elfsborg í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, var valinn besti markvörður tímabilsins sem lauk um helgina.

Hákon og félagar hans í Íslendingaliði Elfsborg þurftu að sætta sig við svekkjandi endi á tímabilinu þar sem liðið missti sænska meistaratitilinn í hendur Malmö eftir 1-0 tap í viðureign liðanna í lokaumferð tímabilsins.

Þrátt fyrir það átti Hákon frábært tímabil í marki Elfsborg og lék hann alla deildarleiki liðsins á tímabilinu nema einn þegar hann var í banni. Án Hákons tapaði liðið 3-0, en alls fékk liðið aðeins á sig 26 mörk í 30 leikjum.

Hákon, sem er aðeins 22 ára gamall, gekk til liðs við Elfsborg árið 2021. Þar áður lek hann með uppeldisfélagi sínu, Gróttu, og fór með Seltyrningum úr 2. deild og upp í efstu deild. Hann á að baki fjóra leiki fyrir íslenska A-landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×