Innlent

„Verður hægt að fara heim aftur?“

Lovísa Arnardóttir skrifar
Ögn Þórarinsdóttir ásamt börnum sínum.
Ögn Þórarinsdóttir ásamt börnum sínum.

Grindvíkingarnir Ögn Þórarinsdóttir og Hildur Fjóla Bridde eru í nokkru áfalli eftir að hafa yfirgefið heimili sín í gær. Óvissan er algjör. 

„Ég er ekkert rosalega bjartsýn á hvernig þetta mun þróast. Ég er búin að búa þarna í fjögur ár og á einbýlishús og sex hunda. Ég er komin til foreldra minna með sex hunda og það er meira en að segja það,“ sagði Hildur Fjóla Bridde, íbúi í Grindavík en hún hafði sjálf farið úr bænum um kvöldmatarleyti í gær.

„Það var ekkert hægt að vera þarna lengur. Ég var tilbúin að fara upp úr hálf sex. Hundarnir voru að panikka og húsið réð á reiðiskjálfi.“

Hildur segir útlitið mun verra en talið var. Hún hafi aðeins tekið það helsta með og bíði þess að vita hvort hún geti sótt meira.

Hildur Fjóla Bridde er mikil hundakona.

Ögn Þórarinsdóttir, íbúi í Grindavík, tekur í sama streng. Hún var staðsett í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum með börnin þegar fréttastofa náði tali af henni í morgun.

„Maður er eiginlega bara í sjokki. Þetta er eitthvað svo ótrúlegt. Það er mikil þreyta í fólki. Þetta er bara eiginlega absúrd.“

Fórstu í nótt eða varstu farin?

„Við fórum um sjöleytið. Það kom einn svakalega stór og þá urðu börnin mín svo hrædd að við gátum ekki verið lengur,“ segir hún en þau gista nú hjá tengdaforeldrum hennar.

Gengið var húsi úr húsi við rýmingar í gærkvöldi.Vísir/Vilhelm

Hún segir tvær systur hennar einnig hafa flúið bæinn í gær og þær hafi verið í góðu sambandi í morgun. Hún segir þau bíða upplýsinga um næstu skref.

„Það er vonandi að, af því að það fóru flestir í hálfgerðum hvelli, að við fáum að fara heim til að sækja gæludýr og annað sem hefur orðið eftir. Í upphafi var maður eiginlega bara hræddur um hvað ef frýs í lögnunum þegar heita vatnið er farið. Ekki bara, er húsið mitt uppistandandi? er allt í lagi? Verður hægt að fara heim aftur?“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×