Innlent

„Þunn lína á milli þess að fræða og hræða“

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Guðmundur Heiðar Helgason, almannatengill, segir ólík skilaboð geta valdið fólki miklu hugarangri, ekki síst þegar þau komi frá vísindamönnum í sömu fræðigrein. Jarðvísindamennirnir Ármann Höskuldsson og Þorvaldur Þórðarsson hafa ekki legið á skoðunum sínum síðustu daga.
Guðmundur Heiðar Helgason, almannatengill, segir ólík skilaboð geta valdið fólki miklu hugarangri, ekki síst þegar þau komi frá vísindamönnum í sömu fræðigrein. Jarðvísindamennirnir Ármann Höskuldsson og Þorvaldur Þórðarsson hafa ekki legið á skoðunum sínum síðustu daga. Vísir/Sara

Almannatengill segir þunna línu á milli þess að fræða fólk og hræða á óvissutímum sem þessum. Hann telur suma jarðvísindamenn hafa farið yfir þá línu síðustu daga. Misvísandi skilaboð geti valdið fólki miklu hugarangri og skapað upplýsingaóreiðu. 

Vísindamenn virðast ekki vera á einu máli um framvindu jarðhræringa á Reykjanesskaga. Stóra spurningin sem vofir yfir er hvort eldgos sé á næsta leiti eða ekki. Tveir eldfjallafræðingar hafa verið sérlega afdráttarlausir í skoðunum sínum og þykjast fullvissir um að gos sé á næsta leiti.

Haft er eftir Ármanni Hösk­ulds­syni, eld­fjalla­- og jarðefna­fræðing­i við Jarðvís­inda­stofn­un Há­skóla Íslands á mbl.is í dag, að það sé dagaspursmál hvenær gos hefjist. Það sé ekki spurning um hvort heldur hvenær. Þá sagði Ármann í fréttaskýringaþættinum Þetta helst á Rás 2 í vikunni, að ákvarðanafælni ríkti í viðbrögðum stjórnvalda. Ef hann réði væri þegar búið að lýsa yfir hættustigi vegna jarðhræringanna og vinna hafin við varnargarða.

Túlkun almannavarna stangast á við túlkun sérfræðinga

Skoðanir Ármanns rýma við yfirlýsingar Þorvalds Þórðarssonar, prófessors í eldfjallafræði við Háskóla Íslands. Þorvaldur sagði í gær að hann teldi réttast að rýma Grindavík eins og hægt sé. Að hans mati ættu íbúar bæjarins að sofa annarsstaðar á nóttunni. Hann telur jafnframt að ekki sé seinna vænna að koma upp varnargörðum til að verja bæinn.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn almannavarna sagði hinsvegar í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að ekki sé ástæða til að grípa til frekari aðgerða, hættumat sé óbreytt frá því að jarðskjálftahrynan hófst á Reykjanesskaga fyrir sautján dögum. Íbúar í Grindavík geti því verið rólegir. 

Ólík skilaboð geti valdið fólki miklu hugarangri

Fréttastofa leitaði álits hjá Guðmundi Heiðari Helgasyni, almannatengli á auglýsingastofunni Tvist, um upplýsingamiðlun á óvissutímum. Hann bendir á að ólík skilaboð geti valdið fólki miklu hugarangri og skapað ákveðna upplýsingaóreiðu. Ekki síst þegar þessi ólíku skilaboð komi frá vísindamönnum í sömu fræðigrein.

„Það óþægilega við upplýsingaóreiðu er að hún gruggar andrúmsloftið. Ef ekki er brugðist við getur óvissan grasserað og skapað þannig ástand að fólk veit ekki í hvorn fótinn það á að stíga, ef svo má að orði komast,“ segir Guðmundur.

Guðmundur Heiðar telur Víði Reynisson og Kristínu Jónsdóttir hafa staðið sig afar vel í upplýsingamiðlun síðustu daga.Aðsend

„Ég get ímyndað mér óvissan kalli fram enn óþægilegri tilfinningar þegar heimili fólks eru undir, eins og hjá íbúum í Grindavík.“

Einföld, hnitmiðuð og regluleg upplýsingagjöf virki best

Guðmundur segir mikilvægt að yfirvöld haldi áfram að upplýsa almenning og vera aðgengileg í fjölmiðlum. Það sem virki best sé einföld, hnitmiðuð og regluleg upplýsingagjöf.

„Gott er að útnefna ákveðna talsmenn sem koma fram opinberlega til að tryggja ákveðið samræmi í miðlun upplýsinga. Það er afar mikilvægt í því óvissuástandi sem við erum að upplifa núna. Dæmi um þetta eru Víðir Reynisson hjá Almannavörnum og Kristín Jónsdóttir hjá Veðurstofunni.“

Ef við setjum upp PR gleraugun, þá tel ég tel þau standa sig afar vel í sínum hlutverkum.

Þorvaldur hafi farið yfir strikið

Guðmundur telur almannavarnir hafa talað skýrt um þær sviðsmyndir sem eru til staðar varðandi þróun jarðhræringa og ítrekað að fylgst sé með stöðunni allan sólarhringinn. Ákveðnir vísindamenn hafi hinsvegar tekið full harkalega til orða og ákveða fyrirvara hafi skort í ummæli þeirra. Nefnir hann sérstaklega Þorvald Þórðarson.

„Það er þunn lína milli þess að fræða og að hræða. Ég held að Þorvaldur hafi því miður farið yfir þá línu sem vísindamaður.“

Guðmundur segir Otta Rafn Sigmarsson, formann Landsbjargar og íbúa Grindavíkur hafa komist vel að orði á dögunum þegar hann sagði:

„Mér finnst ekkert óeðlilegt að það sé fjallað um þessar hættur frá öllum hliðum en það er eins og það gleymist að taka inn í upplifun íbúa, eða þeirra sem eru að upplifa þetta með beinum hætti þessa dagana.“


Tengdar fréttir

„Íbúar í Grindavík geta verið rólegir“

HS orka undirbýr nú varnargarða vegna mögulegs eldgoss nærri Grindavík. Yfirlögregluþjónn almannavarna segir mjög litlar líkur á að gos sem hæfist núna hefði áhrif í Grindavík með stuttum fyrirvara, því geti íbúar Grindavíkur verið rólegir. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×