Innlent

Ferða­menn ekki upp­lýstir um jarð­hræringar við komuna í Bláa lónið: „Nei, alls ekki“

Helena Rós Sturludóttir skrifar
Chad vissi af stöðunni við lónið.
Chad vissi af stöðunni við lónið. Vísir/Ívar Fannar

Ferðamenn sem voru ný komnir úr Bláa lóninu virtust mis vel upplýstir um jarðhræringarnar á Reykjanesi þegar fréttastofa ræddi við þá í dag. Fáir segjast hafa verið látnir vita af stöðunni við komuna í lónið.

Töluverð umræða hefur verið um Bláa lónið eftir að skjálftavirkni hófst á svæðinu og telja sumir að loka eigi lóninu á meðan óvissustig er á svæðinu. Einn þeirra er Sveinn Gauti Einarsson umhverfisverkfræðingur sem birti skoðanagrein á Vísi í gær þar sem hann spyr hvers vegna ekki sé búið að loka lóninu vegna jarðhræringa. 

Hann vekur athygli á því að hús séu rýmd á hverju ári vegna snjóflóðahættu og eins á því að þrjú síðustu eldgos á Reykjanesskaga hafi hafist án viðvörunar. 

Framkvæmdastjóri Bláa lónsins segir í samtali við fréttastofu að ekki sé tilefni til að loka lóninu að svo stöddu. Þau séu í nánu samstarfi við Almannavarnir og sérfræðinga og staðan metin daglega.

Landris vegna kvikusöfnunar við Þorbjörn heldur áfram. Dregið hefur úr skjálftavirkni síðan á sjötta tímanum í gær og segir náttúruvársérfræðingur á veðurstofunni að þeir skjálftar sem mælst hafa séu minni en áður. Gera megi þó ráð fyrir að jarðskjálftavirkni aukist aftur.

Fréttastofa ræddi við nokkra ferðamenn sem voru nýkomnir úr lóninu og spurði hvort þeir séu meðvitaðir um jarðhræringar og óvissuástandið á svæðinu.

Sam hefði sennilega ekki farið ofan í lónið ef hann hefði verið upplýstur um stöðuna. Vísir/Ívar Fannar

„Nei það lét mig enginn vita þegar ég kom í lónið,“ segir Sam og bætir við að hann hefði líklega ekki farið ofan í hefði hann vitað af stöðunni. 

Heyra má í fleiri ferðamönnum hér í sjónvarpsfréttinni að ofan. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×