Innlent

Borgina vantar bagga og biðlar til bænda

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
„Getur þú hlaupið undir bagga?“ spyrja borgaryfirvöld.
„Getur þú hlaupið undir bagga?“ spyrja borgaryfirvöld. Vísir/Vilhelm

Óvenjuleg auglýsing frá Reykjavíkurborg hefur vafalítið vakið athygli þeirra sem þegar hafa lesið Bændablaðið sem kom út í morgun en þar auglýsir borgin eftir 200 heyböggum til kaups.

„Heylaust í borginni - getur þú hlaupið undir bagga?“ stendur stórum stöfum í auglýsingunni en því fer þó fjarri að um neyðarástand sé að ræða heldur vantar heybagga til skreyta borgina á aðventunni.

„Við erum að auglýsa í fyrsta sinn því síðustu þrjú ár þá var bóndi sem heyjaði bagga sem við keyptum en hann heyjaði ekki í ár,“ segir Rebekka Guðmundsdóttir borgarhönnuður, aðspurð um heyskortinn. „Það eru mjög fáir sem eru að þessu enda ekki lengur heyjað í bagga fyrir búin,“ útskýrir hún.

Heybaggarnir hafa verið notaðir á torgum borgarinnar þar sem fólk safnast saman á aðventunni til að sitja á og „mýkja þau“, segir Rebekka.

„Þetta hefur skapað svona hlýleika og svo verður þetta líka að óformlegum leiksvæðum fyrir börn. Við höfum verið með þá á Lækjatorgi þar sem jólatrjásala Skógræktarinnar er og jólakötturinn og þar hefur fólk verið að taka fjölskyldumyndir. Svo höfum við verið með þá á Óðinstorgi þar sem er jólatré, til að skapa setuaðstöðu. Og svo líka við jólamarkaðinn á Hjartatorginu. Þar er þetta meðfram sölubásunum og skapar mjúka og hlýja stemningu.“

Rebekka segir uppsetningu bagganna í raun einnig vera orðin þáttur í jólaundirbúningi- og stemningu starfsmanna borgarinnar en borgarhönnunarteymið vinni að því með hverfastöðvunum að koma þeim fyrir.

En hvað verður um þá eftir jól?

„Baggarnir eiginlega „skemmast“ en það fer svolítið eftir veðráttunni hversu lengi við getum notað þá. En svo fara þeir bara í lífræna endurvinnslu,“ segir Rebekka.

Hér má finna auglýsinguna í Bændablaðinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×