Innlent

Haukar og starfs­fólk BM Vallár harmi slegin

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Viðbragðsaðilar voru á vettvangi slyssins langt fram á kvöld í gær.
Viðbragðsaðilar voru á vettvangi slyssins langt fram á kvöld í gær. Vísir/Vilhelm

Starfsfólk BM Vallá er harmi slegið vegna banaslyss sem varð við Ásvelli í Hafnarfirði á sjötta tímanum í gær. Knattspyrnufélagið Haukar sendir fjölskyldu átta ára drengs sem lést samúðarkveðjur. Hann var iðkandi hjá félaginu.

Viðbragðsaðilum barst tilkynning þegar klukkan var tíu mínútur gengin í sex síðdegis í gær. Slysið varð syðst á Ásvöllum, á bílastæði á milli Ásvallalaugar og íþróttahúss Hauka. Átta ára drengur var á reiðhjóli þegar hann varð fyrir steypubíl BM Vallár.

„Hugur okkar allra er hjá fjölskyldu og ástvinum drengsins sem lést og öllum sem eiga um sárt að binda. Á þessari stundu einbeitum við okkur að því sem við getum gert, veita upplýsingar og aðstoð til allra sem að málinu koma og hlúa að okkar starfsfólki,“ segir Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Eignarhaldsfélagsins Hornsteins sem á og rekur BM Vallá, í samtali við DV.

Knattspyrnufélagið Haukar minnist átta ára drengsins en hann æfði knattspyrnu með félaginu.

„Sá sorglegi atburður átti sér stað í gær að 8 ára gamall drengur, iðkandi hjá Haukum í fótbolta, lét lífið í umferðarslysi hér á Ásvöllum. Við sendum fjölskyldu drengsins, innilegar samúðarkveðjur vegna þessa hörmulega slyss. Hugur okkar er hjá ykkur,“ segir á heimasíðu Hauka.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka tildrög slyssins. Unnið var á vettvangi slyssins langt fram á kvöld í gær samkvæmt upplýsingum fréttastofu.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×