Innlent

Svara til saka í enn einu skútu­málinu við Ís­lands­strendur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Einn ákærðu í málinu, sá fyrir miðju sem horfir á ljósmyndara, kemur fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjaness í morgun í fylgd lögreglumanna.
Einn ákærðu í málinu, sá fyrir miðju sem horfir á ljósmyndara, kemur fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjaness í morgun í fylgd lögreglumanna. Vísir

Þrír danskir ríkisborgarar svara í dag til saka í einu stærsta fíkniefnamáli sem komið hefur upp hér á landi. Tæplega 160 kíló af hassi fundust í borð í skútu nærri Garðskagavita í júní.

Dönsku ríkisborgararnir koma einn í einu í dómsal í Héraðsdómi Reykjaness í lögreglufylgd. Þannig hlýða þeir ekki á vitnisburð hvers annars. Þeir hafa verið í gæsluvarðhaldi síðan þeir voru handteknir að kvöldi 23. júní. 

Tveir mannanna eru ákærðir fyrir að hafa ætlað að sigla með hassið til Grænlands í þeim tilgangi að selja þar. Tveir þeirra, Henry Fleischer 34 ára og Poul Frederik Olsen 54 ára, sigldu skútunni frá Danmörku og svo við Íslandsstrendur á leið sinni. Þriðji maðurinn og sá yngsti, hinn 21 árs gamli Jonaz Rud Vodder, flaug til Íslands og fékk samkvæmt því sem fram kemur í ákærunni leiðbeiningar um kaup á búnaði og vistum. Það var svo þegar annar skútumannanna kom á gúmmíbát í land til að fá vistir hjá yngsta manninum í fjörunni við Garðskagavita sem lögregla lét til skarar skríða og handtók þá.

Þeir sem sigldu skútunni eru ákærðir fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot en sá í landi fyrir hlutdeild í brotinu. Þeir fyrrnefndu hið minnsta eiga yfir höfði sér ansi þungan dóm og samverkamaðurninn sömuleiðis. Þetta er eitt mesta magn hass sem lagt hefur verið hald á hér á landi. Tveir karlmenn fengu níu ára og sjö og hálfs árs fangelsi fyrir innflutning á 200 kílóum af hassi árið 2009. Hámarksrefsing í málaflokknum er tólf ár.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem lögregla hér á landi leggur hald á mikið magn fíkniefna um borð í skútu. Sex karlmenn voru dæmdir í samtals 32 ára fangelsi í héraðsdómi árið 2008 fyrir að reyna að smygla um 40 kílóum af fíkniefnum frá Danmörku til Fáskrúðsfjarðar með viðkomu í Færeyjum í Pólstjörnumálinu svokallaða. Um var að ræða eitt umfangsmesta fíkniefnamál Íslandssögunnar.

Þá kom upp annað skútumál árið 2009 á Hornafirði en þar hlutu sex karlmenn þunga dóma fyrir aðild að umfangsmiklu smygli.

María Thejll, dómari í málinu, tilkynnti við upphaf aðalmeðferðar í morgun að fjölmiðlum væri bannað að fjalla um það sem fram kæmi í aðalmeðferðinni þangað til öllum skýrslutökum væri lokið. Vísir mun greina ítarlega frá framburði mannanna þriggja að skýrslutökum loknum.


Tengdar fréttir

Grunaði sjálfan sig um græsku vegna leyni­hólfs

Einn þriggja danskra sakborninga sem er ákærður fyrir stórfelld fíkniefnalagabrot með innflutning á hassi með skútu, segist hafa grunað að fíkniefni væru í skútunni, þar sem hann hafi tekið eftir því að búið væri að útbúa leynihólf í hana. Hann hafi þó ekki vitað af þeim.

Skútumaður kemur af fjöllum varðandi 157 kíló af hassi

Danskur karlmaður sem var handtekinn um borð í skútu við Garðskagavita í júní með 157 kíló af hassi segist ekki hafa haft hugmynd um að fíkniefni væru um borð. Hann man ekki hver millifærði á hann peningum til að kaupa skútuna og segist einfaldlega hafa farið í bátsferð til gamans.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×