Innlent

Kjör­bíllinn þræðir sunnan­verða Vest­firði í sam­einingar­kosningum

Atli Ísleifsson skrifar
Kjörbíllinn góði.
Kjörbíllinn góði. Aðsend

Íbúakosningar um sameiningu Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar standa nú yfir og hefur þar meðal annars verið notast við færanlegan kjörstað, svokallaða „Kjörbíl“.

Starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og leikskólans Arakletts greiddu atkvæði í Kjörbílnum á föstudaginn var og í dag verður kjörbíllinn við Odda á Patreksfirði, og á morgun hjá Arnarlaxi á Bíldudal.

Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps, segir það spennandi nýjung í kosningum að geta boðið upp á færanlegan kjörstað. „Það skilar sér vonandi í bættri kjörsókn og verður til þess að fólk sem annars er ólíklegra til að kjósa taki þátt. Það skiptir nefnilega miklu máli að það sé góð þátttaka þegar lýðræðislegar ákvarðanir eru teknar,“ segir Ólafur Þór.

Aðsend

Íbúakosning um sameiningu Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar hófst mánudaginn 9. október og stendur til og með 28. október. 

Kosningin er með heldur óvenjulegu fyrirkomulagi þar sem nýjum reglugerðum um íbúakosningar er fylgt. Bæði er hægt að kjósa á kjörstað en líka með póstkosningu og þá geta allir þeir sem náð hafa 16 ára aldri kosið. 

Alls eru eitt þúsund og fimm manns eru á kjörskrá - tvö hundruð á Tálknafirði og 805 í Vesturbyggð. 

Á föstudaginn var höfðu 139 kosið, eða um 14 prósent, og þar af greiddu 36 atkvæði í kjörbílnum.

Aðsend


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×