Fótbolti

For­eldrarnir grétu í stúkunni á meðan guttinn bjargaði Bar­ca

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marc Guiu fagnar sigurmarki sínu fyrir Barcelona en hann er fæddur 4. janúar 2006.
Marc Guiu fagnar sigurmarki sínu fyrir Barcelona en hann er fæddur 4. janúar 2006. AP/Joan Monfort

Marc Guiu var óvænt hetja hjá Barcelona í spænska fótboltanum í gærkvöldi þegar hann skoraði eina markið í 1-0 sigri liðsins á Athletic Bilbao. Hann setti líka nýtt félagsmet.

Þessi sautján ára strákur hafði aldrei áður komið við sögu hjá aðalliði félagsins þegar hann var sendur inn á völlinn á 79. mínútu í stöðunni 0-0.

Aðeins 33 sekúndum síðar var Guiu búinn að skora markið sem reyndist vera eina mark leiksins.

Hann var fljótari en allir leikmenn í sögu Barcelona að skora sitt fyrsta mark fyrir félagið.

Sigurinn þýðir að Barcelona er eini stigi á eftir toppliði Real Madrid en liðin mætast um næstu helgi.

„Ég sagði við hann að hann myndi frá eitt gott tækifæri. Ég elska að horfa í andlitin á þessum krökkum. Þeir óttast ekkert,“ sagði Xavi, knattspyrnustjóri Barcelona eftir leikinn.

Guiu kom aðeins inn í hópinn vegna meiðslavandræða Barcelona en margir leikmenn eru meiddir þar á meðal Robert Lewandowski og Frenkie de Jong.

Marc hefur verið í La Masia akademíunni í tíu ár og þykir einstaklega góður í að klára færin. Hann hafði aðeins spilað sjö mínútur fyrir b-liðið enda spilar hann vanalega fyrir átján ára lið félagsins.

Báðir foreldrar hans voru meðal áhorfenda á leiknum og fóru þau að gráta eftir strákurinn skoraði markið sitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×