Fótbolti

Guð­rún skoraði þegar Rosengård tryggði sér sæti í riðla­keppninni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Guðrún Arnardóttir í leik með FC Rosengård.
Guðrún Arnardóttir í leik með FC Rosengård. Vísir/Getty

Sænska liðið Rosengård tryggði sér örugglega sæti í riðlakeppni Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu eftir öruggan sigur á serbneska liðinu Spartak Subotica. Guðrún Arnardóttir var á meðal markaskorara í leiknum.

Rosengård var í ágætri stöðu eftir fyrri leik liðanna í Serbíu. Sænska liðið fór þar með 2-1 sigur af hólmi en liðin mættust á heimavelli Rosengård í Malmö í dag.

Þar var aldrei spurning hvort liðið myndi vinna. Rosengård náði 3-0 forystu strax í fyrri hálfleik og bætti fjórða markinu við tíu mínútum fyrir leikslok. Þegar fimm mínútur voru eftir skoraði Guðrún Arnardóttir síðan fimmta mark Rosengård og innsiglaði sigurinn.

Gestirnir minnkuðu muninn í uppbótartíma. Lokatölur í dag 5-1 og samanlagt 7-2 í einvíginu. Rosengård er því komið áfram í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar en liðunum verður nú skipt í fjórða riðla og fer drátturinn fram á föstudag.

Guðrún Arnardóttir lék allan leikinn í vörn Rosengård í dag en hún hefur átt fast sæti í vörn liðsins á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×