Innlent

Barði mann í hausinn með bjór­glasi og þarf að borga honum milljón

Árni Sæberg skrifar
Árásin átti sér stað á Hvíta húsinu á Selfossi.
Árásin átti sér stað á Hvíta húsinu á Selfossi. Facebook/Hvítahúsið skemmtistaður

Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið sakfelldur fyrir stórfellda líkamsárás, með því að hafa slegið mann í höfuðið með glerglasi á skemmtistaðnum Hvíta húsinu á Selfossi í apríl í fyrra.

Í dómi Héraðsdóms Suðurlands, sem kveðinn var upp fyrir viku síðan en birtur í gær, segir að sá sem fyrir glasinu varð hafi hlotið nokkra skurði í andliti. Hann hafi gert kröfu um miskabætur að fjárhæð 800 þúsund króna, skaðabætur vegna beins vinnutaps upp á 450 þúsund krónur og málskostnað.

Maðurinn mætti ekki við þingfestingu málsins þrátt fyrir lögmæta birtingu ákæru ásamt fyrirkalli þar sem þess var getið að málið kynni að verða dæmt að honum fjarstöddum. Því var farið með málið eins og það væri sannað. Þá taldi dómurinn að háttsemi hans væri rétt heimfærð til refsiákvæða.

Maðurinn var því dæmdur til sex mánaða fangelsisvistar en fullnustu refsingar var frestað og bundin skilorði til tveggja ára.

Þá taldi dómurinn að miskabætur væru hæfilega metnar 700 þúsund og að krafa brotaþola um bætur vegna vinnutaps væri studd nægilegum gögnum og því var fallist á hana. Þá var maðurinn dæmdur til að greiða fórnalambinu 150 þúsund krónur í málskostnað. Því kostar höggið með glasinu manninn alls 1,3 milljónir króna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×