Fótbolti

Frakkar herða öryggis­gæsluna til muna eftir voða­verkin í Brussel

Aron Guðmundsson skrifar
Voðaverk var framið í Brussel í Belgíu í gær
Voðaverk var framið í Brussel í Belgíu í gær Vísir/Getty

Yfir­völd í Frakk­landi hafa hert öryggis­gæsluna, í tengslum við vin­áttu­leik franska lands­liðsins í fót­bolta við Skota í kvöld, til muna eftir voða­verkin sem áttu sér stað í Brussel í gær­kvöldi þegar að á­rásar­maður skaut tvo Svía til bana.

Lands­leikur Belgíu og Sví­þjóðar í undan­keppni EM í fót­bolta fór fram í Brussel í gær­kvöldi og voru Svíarnir tveir, sem skotnir voru til bana, klæddir sænsku lands­liðs­treyjunni.

Á­rásar­manninum tókst að flýja af vett­vangi og stóð víð­tæk leit að honum yfir í alla nótt. Nú undir morgun var svo stað­fest að lög­reglan hefði haft hendur í hári mannsins, til skot­bar­daga kom og lést á­rásar­maðurinn þar af sárum sínum.

Hættu­stigið í Brussel var, í kjöl­far árásarinnar, sett á hæsta stig og sömu­leiðis hertu stjórn­völd í Frakk­landi eftir­lit sitt við landa­mæra­stöð sína að Belgíu.

Lands­leikur Frakk­lands og Skot­lands fer fram í Lil­le í kvöld. Lil­le er í að­eins um 100 kíló­metra fjar­lægð frá Brussel og hafa yfir­völd í Frakk­landi á­kveðið að herða öryggis­gæsluna, í tengslum við leikinn og í kringum völlinn, til muna.

Þetta stað­festir innan­ríkis­ráð­herra Frakk­lands, Gérald Darmanin, í sam­tali við RTL en að­eins eru nokkrir dagar síðan að hættu­stig var sett á hæsta stig í landinu.

Það var gert í kjöl­far þess að á­rásar­maður lét til skarar skríða í Gambetta-fram­halds­skólanum í bænum Arras í Frakk­landi.

Á­rásar­maðurinn var fyrrum nemandi við skólann en hann notaði hníf við verknað sinn sem varð kennara við skólann að bana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×