Innlent

Vetrar­færð víða og snjór í efri byggðum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Vetrarfærð er víða á landinu. Mynd er úr safni.
Vetrarfærð er víða á landinu. Mynd er úr safni. Vísir/Vilhelm

Vetrar­færð er nú víðs­vegar um landið og nokkuð hefur snjóað í efri byggðum höfuð­borgar­svæðisins í nótt og einnig á Hellis­heiði.

Þá segir Vega­gerðin út­lit fyrir að veginum frá Kirkju­bæjar­klaustri að Jökuls­ár­lóni verði lokað núna klukkan sjö og fram eftir degi. Á Suð­vestur­landi er staðan þannig að þæfings­færð og skaf­renningur er í Þrengslum og á Blá­fjalla­vegi, snjó­þekja og skaf­renningur er á Hellis­heiði og Mos­fells­heiði, krapi og hálku­blettir eru á nokkrum öðrum leiðum.

Á Vestur­landi er þæfings­færð í Bröttu­brekku en krapi, hálka eða snjó­þekja á öðrum leiðum. Á Vest­fjörðum er síðan snjó­þekja á Stein­gríms­fjarðar­heiði, Þröskuldum og á Hálf­dán, krapi er í Súganda­firði. Hálka eða hálku­blettir eru á öðrum leiðum.

Á Suður­landi er krapi eða snjó­þekja á nokkrum vegum í Upp­sveitum sem og á Reynis­fjalli og á Suð­austur­landi er Þæfings­færð á milli Jökuls­ár­lóns og Hafnar og krapi á Eld­hrauni. Gular veður­við­varanir eru í gildi á Suður­landi, Faxa­flóa, Vest­fjörðum, Suð­austur­landi og á Mið­há­lendinu.

Svona var færðin um sjö í morgun á Hellisheiði á Suðurlandi eins og sést á mynd frá vegfaranda til Vísis.Aðsend

Gular veður­við­varanir

Þá eru gular veður­við­varanir Veður­stofu í gildi á Vestur­landi og á Faxa­flóa, Suður­landi, Suð­austur­landi, Mið­há­lendinu og Vest­fjörðum.

Við­vörun er í gildi á Faxa­flóa og á Vestur­landi til klukkan 12:00. Þar er austan og síðar norð­austan hvass­viðri. Á Vest­fjörðum er veður­við­vörun í gildi til mið­nættis vegna norð­austan hvass­viðris en stormi til fjalla.

Á Suður­landi er austan hvass­viðri með vind­hraða á bilinu 10-20 metrum á sekúndu, hvassast við sjóinn. Búast má við tals­verðri snjó­komu með lé­legu skyggni og er við­vörun í gildi til 13:00.

Á Suð­austur­landi er austan hvass­viðri, hvassast í kringum Ör­æfa­jökul. Búast má við mikilli snjó­komu einkum í kringum Vatna­jökul og á Reynis­fjalli. Við­vörun í gildi til 14:00. Á Mið­há­lendinu er austan og síðar norð­austan hvass­viðri með snjó­komu. Ekkert ferða­veður. Við­vörun í gildi til klukkan 18:00.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×