Innlent

Þotan lögð af stað að sækja Íslendingana

Kristján Már Unnarsson skrifar
Boeing 757-þotan TF-FIU, eða Hekla Aurora, oft nefnd Norðurljósaþotan, er núna á leiðinni til Amman í Jordaníu. Hún tekur 184 farþega í sæti.
Boeing 757-þotan TF-FIU, eða Hekla Aurora, oft nefnd Norðurljósaþotan, er núna á leiðinni til Amman í Jordaníu. Hún tekur 184 farþega í sæti. Vilhelm Gunnarsson

Flugvél Icelandair, sem utanríkisráðuneytið leigði til að sækja Íslendinga í Ísrael, er farin í loftið frá Keflavíkurflugvelli. Farkosturinn er Boeing 757-þotan TF-FIU, sem ber nafnið Hekla Aurora, en hún er máluð í litum norðurljósanna.

Flugtakið frá Keflavík var klukkan 10.22. Flugtími til Amman í Jórdaníu er áætlaður um sex klukkustundir. Lending á Queen Alia-alþjóðaflugvellinum í Amman er áætluð klukkan 19.23 að staðartíma, eða klukkan 16.23 að íslenskum tíma, samkvæmt flugratsjársíðunni Flightradar 24.

Flugleggurinn milli Keflavíkur og Amman er um 5.400 kílómetrar. Flugdrægi 757-þotunnar er allt að 6.300 kílómetrar þannig að hún ætti að komast á milli staðanna án millilendingar.

Þotan hefur kallmerkið ICE 1086 á leið sinni til Amman í Jórdaníu. Hún var stödd undan Hornafirði laust fyrir klukkan ellefu.Flightradar24

Í frétt utanríkisráðuneytisins í morgun kom fram að um 120 manna hópur Íslendinga í Ísrael, sem til stóð að yrði sóttur til Tel Aviv, yrði fluttur til Amman í Jórdaníu, þaðan sem hópnum yrði flogið aftur heim til Íslands. Icelandair ákvað í gær að lenda ekki á flugvellinum í Tel Aviv vegna nýs öryggismats.

Áætlað var að Íslendingahópurinn legði af stað frá Jerúsalem áleiðis til Amman um hálfníuleytið í morgun og er stefnt að því að flogið verði þaðan til Íslands í kvöld.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×