Fótbolti

Blatter segir það fá­rán­legt að hafa HM í fót­bolta í sex löndum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sepp Blatter er ekki hrifinn af nýjustu stóru ákvörðun FIFA varðandi komandi heimsmeistaramót sem fram fer árið 2030.
Sepp Blatter er ekki hrifinn af nýjustu stóru ákvörðun FIFA varðandi komandi heimsmeistaramót sem fram fer árið 2030. Getty/Philipp Schmidli

Fyrrum forseti Alþjóða knattspyrnusambandsins er einn af þeim sem gagnrýnir harðlega fyrirkomulagið á heimsmeistaramótinu í fótbolta árið 2030.

Sepp Blatter er ekki hrifinn af því að halda HM eftir sjö ár í sex löndum í þremur heimsálfum.

Keppnin á að fara fram á Spáni, í Portúgal og í Marokkó en opnunarleikirnir fara aftur á móti fram í Úrúgvæ, Argentínu og Paragvæ. Fyrstu leikir mótsins fara fram þar til að minnast þess að hundrað ár verða þá liðin síðan HM var haldið í fyrsta skiptið í Úrúgvæ 1930.

Blatter hefur mátt þola meiri gagnrýni en allir aðrir forsetar FIFA. Hann var forseti á árunum 1998 til 2015 eða þar til að hann hrökklaðist frá völdum eftir hneykslismál.

„Það er fáránlegt að rífa mótið í sundur með þessum hætti,“ sagði Sepp Blatter í viðtali í svissneska blaðinu SonntagsBlick. ESPN segir frá.

„Heimsmeistaramótið þar af vera samheldinn viðburður,“ sagði Blatter og sagði það mikilvægt fyrir ímynd mótsins, fyrir bæði skipuleggjendur og gesti.

Hinn 87 ára gamli Blatter vildi sjá mótið haldið í Suður Ameríku í tilefni af hundrað ára afmælinu.

„Af sögulegum ástæðum þá átti heimsmeistaramótið 2030 alltaf að fara allt fram í Suður Ameríku,“ sagði Blatter.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×